Báðar voru um áttrætt þegar við heilsuðum upp á þær á stofugangi. Þær höfðu gengist undir sömu aðgerð og deildu herbergi. Sú sem lá nær dyrunum muldraði eitthvað og kvaðst ekki geta farið heim. Líkamlega var hún fær um að sjá um sig sjálf en henni leið augljóslega illa. Sú sem lá við gluggann var komin á ról og þakkaði glaðlynd fyrir góða þjónustu. Hún hafði verið blind frá barnæsku en hlakkaði til að komast heim.

Setjum okkur í spor kvennanna. Ef þú þyrftir að velja, hvort hlutskiptið yrði fyrir valinu?

Fyrir mér er andleg heilsa gáttin að tilverunni, því maður getur auðveldlega gengið í gegnum lífið án þess að hafa raunverulega lifað.

Undanfarin ár hafa orðið miklar framfarir í skilningi og meðferð á andlegri vanlíðan. Við sem samfélag getum samt gert betur til að hlúa að andlegri heilsu.

Andleg heilsa lendir oft neðarlega á forgangslista í heilbrigðisþjónustu. Þetta er umhugsunarvert þegar tölur (frá Bandaríkjunum) sýna að streitutengdir sjúkdómar eru í þriðja sæti yfir hæstu útgjaldaliði í heilbrigðisþjónustu, á eftir krabbameinum og hjartasjúkdómum – sem hafa reyndar talsverða tenginu við streitu. Auk þess er áætlað að 60-90% af tíma heimilislæknis sé varið í að eiga við streitutengd vandamál, t.d. bakverki, höfuðverki, svefnleysi, bakflæði og meltingartruflanir.

Værum við ekki betur sett ef hvert mannsbarn hefði aðgang að sálfræðingi, líkt og heimilislækni? Ef marka má tölurnar að ofan þá eru ansi mörg okkar sem þyrftum á einum sála í símaskránni að halda, sem getur hjálpað þegar persónulega batteríið er að tæmast og manni tekst ekki að hlaða það sjálfur.

Til að öðlast lífsgleði blindu konunnar.