Eitt sterkasta framlag homma og lesbía til sinnar eigin réttindabaráttu væri sennilega að hætta að nota orðið hinsegin.

Í hinsegin felst að flestir aðrir séu normið, en þau hin séu abnormal og á sumum er að skilja að þess vegna eigi þau svo erfitt.

Séu fórnarlömb eigin tilvistar, svo hæfilega skáldlega sé ort.

Sú heyrist mér talsvert vera tilfinningin nú þegar við höldum árlega hátíð þeirra sem eru – nei, ekki hinsegin, ekki abnormal, heldur svona lifandi bráðeðlileg.

Orð skipta máli

Fyrir ekkert mjög mörgum árum var hommi meðal verstu skammaryrða tungunnar, að ég nefni ekki blessaðan kynvillinginn. Af einhverjum ástæðum fékk lesbía aldrei alveg sömu þyngd, þótt reynt væri að bæta úr því með lessu. Eða trukkalessu upp á kikkið.

Fyrir alltof fáum árum ákvað eitthvert skynsamt fólk að snúa notkun þessara orða á haus. Alls konar fríðleiksdrengir fóru að segja opinberlega og kinnroðalaust:

„Já, ég er hommi.“ Sumir voru jafnvel svo ósvífnir að bæta við: „Og stoltur af því.“

Sjálfstraustið geislaði af þeim flestum.

Með þessari einföldu en áhrifaríku aðgerð var vopn slegið úr höndum hinna hræddu. Ef þessir strákar skömmuðust sín ekki (lengur) fyrir að vera hommar, þá var hommi ekki lengur skammaryrði.

Flóknara var það ekki.

Einhvers konar hliðstæða (þótt gerólík sé) var þegar amerískir blökkumenn hertóku nigger í sína þágu.

Það var hið gamla niðrunarorð bleiknefja um brúnt fólk, en svo var skyndilega farið að yrkja í rapptónlist um nigger vinstri-hægri, og er gert svolítið enn.

Stóri munurinn á þessu tvennu er að við þessi bleiku – sem erum utan brúnu fjölskyldunnar – megum helzt ekki enn nota þetta orð um brúna, þótt þeir geri það sín á milli án nokkurrar niðrunar.

Við þessi leiðinlegu megum samt kalla homma og lesbíur það án athugasemda. Sennilega af því að við erum í sömu fjölskyldu.

Svona eru orð mikilvæg og merkileg.

Flónin

Þegar fólk talar um bakslag í baráttu samkynhneigðra virðist mér einkum tvennt vera nefnt, hvort tveggja algerlega tilfallandi og hefur enga dýpri merkingu.

(Ég sleppi vísvitandi hlutskipti trans fólks, sem er annars konar umræða, og líka því sem gerist utan Íslands. Þar er alvara á ferð og Ísland er himnaríki í samanburði.)

Fyrst þetta kjánalega gelt að öðruvísi fólki til birtingar á rafmiðlum.

Ég þori að lofa okkur því að þetta gelt verður horfið innan fárra mánaða (ef það er ekki horfið nú þegar). Það hættir að vera hipp og kúl á TikTok að endurtaka sífellt sama athæfið.

Þá láta strákbjánarnir af þeirri hegðun enda ekki sjáanleg nokkur ígrunduð hugsun að baki sem kalla mætti alvarlega samfélagslega breytingu.

Svo ákvað vararíkissaksóknari á dögunum að opinbera heimsku sína. (Heimska vísar hér, vel að merkja, ekki til svokallaðs gáfnafars). Og svosum ekki í fyrsta skipti enda virðist maðurinn eiga í talsvert erfiðum samskiptum við hugsanir sínar.

Sú opinberun virðist líka vera eitt af þessum tilfallandi tilvikum, sem hefur áhrif og vekur viðbrögð langt um efni fram.

Verstu viðbrögðin (fyrir utan að reyna að berja vit í hausinn á honum) eru sennilega að kæra hann. Það hefur nú verið gert, ef marka má fréttir. Af þeim sem sízt skyldi.

Að kæra einhvern fyrir flónsku eða jafnvel bara vondar skoðanir er ekki til marks um sjálfstraust.

Þvert á móti. Þau viðbrögð lýsa vanmætti og fórnarlambshugsun, að leita aðstoðar hins opinbera af því að pínulítill kall er asni.

Kannske hjálpar þessari hugsun að minna á, að það sem við köllum gleðidaga er á enskunni Pride. Gay Pride.

Stolt og sjálfstraust. Fólk með kassann úti og höfuðið hátt, af því að það hefur ekkert til að skammast sín fyrir.

Svoleiðis fólk kærir ekki, heldur hlær að kjánanum.

Fólin

Vitur kona sagði eitt sinn við mig: „Það er misráðið að láta aðra ráða skapi manns.“

Þessi ummæli sátu í mér og hafa því miður rifjazt upp síðustu dægrin.

Ég geri ekki lítið úr því, að andstæðingar mannréttinda eru enn víða, einkum í afkimum Sjálfstæðisflokksins.

Ekki er heldur langt síðan sjálfur biskup Íslands taldi hjónabönd samkynheigðra beinlínis eyðileggingu á hjónabandinu sem heilagri kristinni stofnun.

En þessu fólki fer blessunarlega hratt fækkandi á Íslandi.

Hins vegar: Ef við ætlum að láta fólin – eða flónin – ráða skaplyndi okkar, viðbrögðum og tilfinningum, þá hafa fólin haft sigur.

Gleðilega hátíð.