Nú höfum við hjónin skrifað bakþanka samfleytt í fimm ár og tími kominn að gefa nýjum pennum rými. Það hefur verið okkur sífelld áskorun að taka hér þátt en líka oft verið þakklátt. Þá hefur það verið okkur holl ögun að fá alltaf sömu 1650 stafabilin til að ramma inn hugsunina hverju sinni, miskunnarlaust.

Fréttablaðið er víðlesnasta blað landsins, borið vítt um byggðir og leitast við að ná til landsmanna allra. Slík fjölmiðlun hefur aldrei verið mikilvægari en nú á tímum bergmálshella og neyslusviga þar sem sífleiri heyra bara og sjá fólk sem býr við svipaða lífssýn, menningu, áhugamál og neyslu en tortryggni milli menningarhópa fer vaxandi vegna gagnkvæmrar vanþekkingar. Annar þáttur sem styður vægi sterkra fjölmiða er sú staðreynd að við lifum á tímum þar sem áhrifaöfl virðast í vaxandi mæli forðast staðreyndir en fleyta sér til áhrifa með falsfréttum í þágu sérhagsmuna.

Þess vegna hefur okkur þótt mikilvægt að láta rödd okkar heyrast þannig að almenningur heyri sjónarmið byggð á kristnum lífsskilningi. Hin pólitíska krafa kristinnar trúar er áherslan á virðingu og samlíðun. Sú krafa er ekki sér-kristin heldur eigum við þar samleið með flestu fólki á veröld þar sem sjálfmiðuð hagsmunabarátta er kerfisbundið stunduð. Í dag sýna náttúruvísindin svo vel það sem trúararfurinn hefur alltaf vitað: Við erum öll af sama efni sem hluti af einu sköpunarverki á samleið til móts við hið ómælanlega. Frá trúarlegu og lífvísindalegu sjónarhorni er því skynsamlegasta svarið við lífinu að elska. Um leið og við kveðjum að sinni biðjum við góðan Guð að blessa land og lýð.