Nýlega var kynntur enn einn turninn við sjávarsíðuna í Reykjavík, átján hæða hótelturn á horni Vitastígs og Skúlagötu. „Þetta verður eitt af sérkennum Reykjavíkur, ásamt Hallgrímskirkju og Perlunni,“sagði arkitektinn. Blessaður maðurinn veit ekki að gömlu húsin og falleg fjallasýn eru sérkenni Reykjavíkur. Varla nema von þegar borgaryfirvöld hafa ekki náð því enn þá og samþykkja þennan himinháa Reykjavíkurreður.

Norðurveggurinn í Reykjavík er farinn að minna á The Wall í Game of Thrones og stöðugt er múrað meira upp í útsýnið til norðurs sem er sundurskorið af turnum.

Hvergi er veggurinn hærri og þéttari en í kringum miðborgina. Háhýsin á Skúlagötu, hörmungin á Hafnartorgi og austurbakka hafnarinnar eru nýjustu múrsteinarnir í vegginn. Það er líka mikið tekið að henda hæðum ofan á eldri byggingar sem verið er að breyta í hótel, Slippinn, Héðinshúsið, Landsímahúsið, rétt eins og enginn búi fyrir aftan þau.

Á hvergi að vera skarð í múrnum fyrir augað og sálina að fá smá hvíld frá þessari steypu? Hvað með það sem eftir er? Stálsmiðjureitinn, Miðbakkann, Ánanaustin, á líka að múra upp í þá glugga? Það er von að fólk spyrji: Hver hannaði þessa distópísku framtíðarsýn fyrir borgina? Borgarstjórn? Skipulagsyfirvöld? Verktakar? Arkitektar? Andskotinn? Skammsýnin í að byggja háhýsi við sjó er augljós þegar litið er til Heimahverfisins og Efra Breiðholts; háhýsin efst á hæðinni og lægri hús neðar. Allir glaðir.

Með hverri nýrri byggingu í Reyjavíkurmúrinn eru tekin lífsgæði af öllum sem búa innar í borginni. Langt austur í bæ skera turnar útsýnið út á flóann til Snæfellsjökuls. Taumlaus græðgi er lélegt stílsnið manneskjulegs umhverfis. Tjón íbúa Reykjavíkur er mikið sem og gróði verktaka og hóteleigenda í boði borgaryfirvalda. Eru þau blind? Halda þau að borgarbúar séu það?

Bless, bless, Akrafjall og Skarðsheiði, fjólubláir draumar Reykvíkinga tilheyra nú örfáum auðmönnum í lúxusíbúðum og ríkum ferðamönnum á hótelsvítum.