Í viðtalið við Fréttblaðið 1. september sl. heldur Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, enn fram þeir þeirri firru að útboð á tollkvótum til að flytja inn erlendar búvörur hækki verð þeirra til neytenda. Þetta er alrangt og hefur oft verið leiðrétt áður. Þar sem Ólafur heldur þó áfram að veifa þessu ranga tré í ákafa er nauðsynlegt að útskýra þetta enn á ný.

Útboð á tollkvótum og verð á búvörum til neytenda

Svokallaðir tollkvótar eru heimild til að flytja inn tiltekið magn af búvörum á lágum tollum eða tollfrjálst. Þar sem innkaupsverðið erlendis er oft mun lægra en markaðsverðið hérlendis geta þeir sem fá þessar innflutningsheimildir hagnast verulega. Með útboði tollkvóta leggur ríkið gjald á tollkvótana. Því hærra sem þetta gjald er þeim mun minni verður hagnaður innflytjenda. Opið útboð á tollkvótum er til þess fallið að gjaldið verði sem hæst og hagnaður innflytjenda sem minnstur.

Verður þetta fyrirkomulag til að hækka verð til neytenda búvara? Nei, alls ekki! Um búvörur gilda sömu markaðslögmál og aðrar vörur. Verðið sem neytendur þurfa að greiða ræðst annars vegar af eftirspurn þeirra og hins vegar af framboðinu. Þetta verð hækkar ekki nema framboðið magn minnki. Framboð búvara minnkar hins vegar ekki hvert sem fyrirkomulagið er á sölu tollkvóta, svo framarlega sem þeir seljast allir. Það er vegna þess að magn tollkvóta er fast og raunar fyrir fram ákveðið í milliríkjasamningum. Því mun framboð á viðkomandi búvöru ekki minnka svo framarlega sem tollkvótinn selst að fullu. Útboð tryggir að svo sé. Verðið sem greitt er fyrir tollkvóta ræður því einungis skiptingu á hagnaði af innflutningnum milli innflytjenda og ríkissjóðs.

Hví heldur blekkingarleikurinn áfram?

Sem fyrr greinir hafa verið gerðar margar tilraunir til að útskýra þessar tiltölulega augljósu staðreyndir fyrir framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda. Hann hefur hins vegar skellt við skollaeyrunum og heldur áfram að staglast á sömu rangfærslunum um áhrif útboðs á tollkvótum.

Hugsanleg skýring á þessu háttalagi er að umbjóðendur hans í Félagi atvinnurekenda, innflytjendur og heildsalar, hafa beinan hag af því að fá í sínar hendur umrædda tollkvóta á sem allra lægsta verði og helst ókeypis. Hagnaður af slíkum forréttindum getur verið mjög mikill. Núverandi fyrirkomulag á útboði þessara tollkvóta hefur minnkað þennan hagnað verulega. Því er eftir miklu að slægjast ef unnt er með einhverjum ráðum að fá stjórnvöld til að falla frá því.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði