Það er æðsti draumur margra að leggja stund á nám erlendis. Það eykur víðsýni, þú öðlast öðruvísi reynslu en þú hefðir fengið á Íslandi, þú kynnist nýju fólki og öðrum menningarheimum, og lærir vonandi eitthvað í leiðinni. Alla jafnan eiga námsárin erlendis að vera bestu ár lífsins. Heimsfaraldurinn hefur þó að mörgu leyti breytt þessum draumi í martröð. Íslenskir námsmenn erlendis voru í nokkuð viðkvæmri stöðu áður en COVID skall á, enda fara flestir út einir og án félagslegs stuðningsnets í fjarlægu landi. Þegar mörg lönd heimsins skelltu í lás vegna veirunnar fyrir rúmu ári síðan áttu margir námsmenn engan annan kost en að flýja heim til Íslands og misstu því úr stórum hluta dvalartíma síns.

Framfærsla verði fyrirsjáanleg, ekki síbreytileg.

Í sumar tóku gildi ný lög um Menntasjóð námsmanna, og þó mörg framfaraskref hafi verið stigin með þeirri lagasetningu er enn víða pottur brotinn. Námsmenn erlendis fá nú fá sömu framfærslu og námsmaður á Íslandi, nema að námsmaðurinn eigi rétt á staðaruppbót sökum hás verðlags í dvalarlandi. Þetta þýðir að ef íslenskra krónan veikist lækkar framfærsla námsmanna í gjaldmiðli þess lands sem þeir eru í. Grunnframfærsla námsmanna er enn það lág að lítið má bregða út af, en ofan á það bætist að gengissveiflur hafa verið töluverðar sem hefur haft slæm áhrif á afkomu námsmanna erlendis. Samband íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) hefur því lagt til við stjórn Menntasjóðsins að settur verði varnagli í úthlutunarreglur sjóðsins um að ef krónan veikist umtalsvert beri sjóðnum að leiðrétta framfærsluna.

Veitt verði auka-ferðalán eða ferðastyrkur.

Þó við lifum á tímum kórónuveirunnar verður lífið að halda áfram og ákváðu mörg okkar að freista gæfunnar og halda út í nám í haust sem leið. Ákveðinnar bjartsýni gætti víða um lönd og hófu margir háskólar skólaárið með því að blanda saman staðnámi og fjarnámi. Það kom þó fljótt í ljós þegar líða fór á veturinn að grípa þyrfti aftur til mjög takmarkandi sóttvarnaraðgerða. Margir námsmenn stóðu því frammi fyrir vali á milli þess að dvelja erlendis í hálfgerðu útgöngubanni eða koma til Íslands og sinna náminu héðan. Það getur reynt mikið á andlega heilsu að kúldrast einsamall í stúdíóíbúð í ókunnulandi, þekkjandi fáa ef nokkurn og jafnvel ekki talandi á tungumáli landsins. Það er mjög skiljanlegt í þessum aðstæðum að námsmaðurinn vilji komast heim, sér í lagi ef námið er alfarið fjarnám.

Það getur þó verið hægara sagt en gert fyrir námsmenn að komast heim og kostnaður við ferðalög hefur stóraukist. Lítið er um flug og þau mun dýrari en áður var, og nú gerð krafa um að ferðamenn sýni fram á neikvætt PCR-próf við komu á landamærum flestra landa. Slík próf eru misdýr á milli landa en víða erlendis kosta þau tugi þúsunda. Stjórn SÍNE hefur fengið ábendingar frá námsmönnum sem hafa þurft að greiða hátt í 100.000 krónur fyrir PCR-próf. Slík upphæð er mjög íþyngjandi fyrir stúdenta sem reiða sig á framfærslu frá Menntasjóðnum. SÍNE leggur því til að námsmönnum erlendis verði boðið upp á aukaferðalán líkt og gert var í upphafi faraldursins í fyrra. Jafnvel mætti athuga að sú upphæð yrði styrkur frekar en lán. Það gæti létt verulega undir með mörgum að fá stuðning vegna heimkomu, enda ætti kostnaður ekki að standa í vegi fyrir því að námsmenn sem upplifa sig öruggari á Íslandi komist heim.

Styðjum við námsmenn erlendis

SÍNE berast reglulega fyrirspurnir frá íslenskum námsmönnum erlendis um ýmis mál. Það er ljóst af frásögnum þeirra sem setja sig í samband við okkur að margir námsmenn standa frammi fyrir miklum erfiðleikum, allt frá erfiðleikum við próftöku til deilna við leigusala. Ekki er hægt að leysa úr öllum vandamálum, en það er skýlaus krafa SÍNE að íslensk stjórnvöld og Menntasjóður námsmanna hjálpi íslenskum námsmönnum erlendis að komast heim séu þeir strandaðir erlendis. Fjárhagsörðugleikar eiga ekki að hamla því. Þá verður að tryggja það að skyndilegar gengissviptingar komi ekki niður á stúdentum. Við hvetjum stjórn Menntasjóðs námsmanna og menntamálaráðherra til að taka stöðu námsmanna erlendis fyrir sérstaklega.

Ragnar Auðun Árnason er fulltrúi SÍNE í stjórn Menntasjóðs námsmanna
Bjarki Þór Grönfeldt er varafulltrúi SÍNE í stjórn Menntasjóðs námsmanna