Víst gerist það alltaf annað slagið að menn skreyta sig stolnum fjöðrum. En nýverið mátti sjá í Bændablaðinu eitt svæsnasta dæmi um fjaðrastuld sem sögur fara af. Þarna stekkur fram blár hermaður og hreykir sér af verkum sem hann kom hvergi nálægt. Hér vil ég benda á þá bláköldu staðreynd að það hljóta að teljast einstaklega lúaleg vinnubrögð þegar einstaklingur fullyrðir að hann hafi unnið verk sem hann sannarlega vann ekki. Að stela heiðri er ein leið og að rjúka með eigið ágæti í blöðin er önnur leið. Þriðja leiðin er síðan að rjúka í blöðin með lygavef um eigið ágæti.

Ekki er hér við Bændablaðið að sakast. Hér er einungis ætlunin að varpa ljósi á aumkunarverða leið bláa hermannsins til að berja sér á brjóst, að gefa sér heiður fyrir verk sem aðrir fengu að sinna. Ásetningur hans er ekki sá að þakka fólki fyrir vel unnin störf. Ásetningurinn er einfaldlega sá að ljúga til um eigið ágæti og þiggja hrós fyrir verk sem aðrir unnu. En í Bændablaðinu stendur: „Þó svo að 4 tonn liggi í valnum eftir hreinsunina er ógrynni eftir af drasli í fjörum við Langanes að sögn Tómasar Knútssonar hjá Bláa hernum, en hann tók þátt í hreinsuninni ásamt vöskum hópi sjálfboðaliða, 22 að tölu. Verkefnið er samstarfsverkefni Langanesbyggðar og umhverfissamtakanna Ocean Missions auk Veraldarvina og Bláa hersins, en hershöfðinginn Tómas var óvænt staddur í nærliggjandi sveitarfélagi þegar hreinsun fór fram. Hann dreif sig milli fjarða til að taka þátt.“

Hér segir að Blái herinn hafi komið til starfa ásamt 22 sjálfboðaliðum. Og hér er gefið í skyn að Blái herinn hafi verið þarna í fullum skrúða. Þetta er langt frá sannleikanum. Sannleikurinn er sá að þarna var aldrei neinn blár her. Þarna kíkti Tómas Knútsson við, tók nokkrar myndir og gekk um svæðið. Bein þátttaka Bláa hersins var engin. Svo er sagt að um „samstarfsverkefni Langanesbyggðar og umhverfissamtakanna Ocean Missions auk Veraldarvina og Bláa hersins“ hafi verið að ræða. Þetta er hrein og klár lygi. Hið sanna er að Blái herinn tók engan þátt í að skipuleggja verkefnið. Enda opinberast lygin í orðunum: „Tómas var óvænt staddur í nærliggjandi sveitarfélagi þegar hreinsun fór fram. Hann dreif sig milli fjarða til að taka þátt.“ Var hann óvænt staddur í námunda við verkefni sem hann skipulagði sjálfur? Öðrum en inngrónum loddurum er ekki fært að spinna slíkan lygavef um eigið ágæti. Grátlegast af öllu er að hér stekkur fram maður í fullum herklæðum og tekur að sér að vera talsmaður fyrir verkefni sem hann á enga aðild að. Hann lýsir fjálglega aðkomu Bláa hersins að hreinsun strandlengju á Langanesi. Hið merkilega er að vitni hafa staðfest að hann tók ekki þátt í hreinsuninni, mætti bara á staðinn, tók sjálfsmyndir og fór. Hann bað síðan um viðtal hjá Bændablaðinu, þar sem hann lýsir aðkomu Bláa hersins að hreinsunarstarfinu. Þarna var aldrei neinn blár her, einungis blár hermaður sem skreytir sig með stolnum fjöðrum.

Ég hef rætt við fólk sem tók þátt í að skipuleggja þessa fjöruhreinsun og fólk sem tók þátt í vinnunni. Allt þetta fólk er hreinlega hneykslað á fjaðrastuldi Tómasar Knútssonar. Það sem skín í gegn er ekkert annað en hrein lygi. Skoðum það sem sagt er undir forsíðumynd í Bændablaðinu. Um er að ræða mynd af ungu fólki berandi veglega netadræsu. Í texta segir: „Blái herinn hefur á undanförnum árum farið eins og hvítur stormsveipur um fjörur landsins undir dyggri stjórn Tómasar Knútssonar. Nýverið fór hann ásamt vöskum hópi 22 sjálfboðaliða sem tóku sig til við að hreinsa strandlengjuna í Langanesbyggð. Afrakstur þessa mikilvæga hreinsunarstarfs skilaði um fjórum tonnum af rusli af ýmsum toga. (...) Hér eru liðsmenn Bláa hersins með hluta af trolli sem farið hefur í hafið af einhverju aflaskipinu.“

Hér er sagt að „liðsmenn Bláa hersins“ hafi verið við hreinsunarstarf á Langanesi. Hér er látið að því liggja að á myndinni sé að finna „liðsmenn Bláa hersins“ við störf á Langanesi. En hið sanna er að enginn liðsmaður þessa Bláa hers tók þátt í hreinsuninni. Enginn liðsmaður Bláa hersins sást tína rusl úr fjörunni við Langanes. Einn fótgönguliði vappaði um svæðið part úr degi, sagði sögur af afrekum sínum, tók nokkrar myndir og fór með stolnar fjaðrir á forsíðu Bændablaðsins.

Mér ber skylda til að upplýsa hið rétta varðandi þessa umræddu hreinsun. Sjálfur starfa ég með sjálfboðaliðum annað veifið. Ég þekki vel til verka margra samtaka sem vinna að hreinsun strandlengjunnar. En innan þeirra raða er fáheyrt að menn séu að lofa eigin verk að óþörfu. Þó eru til undantekningar frá þeirri meginreglu.

Ef takandi er mark á aðferðafræðinni sem leynist í skrautsýningu hinna stolnu fjaðra í Bændablaðinu, þá má með sanni segja að Blái herinn sé eins manns her sem lifir og hrærist í sýndarveruleika og blekkingu. Þessi her hefur fengið hauga af styrkjum og víst má finna slóð af sjálfshóli þar sem ólík verk eru lofuð af hinum bláa hermanni. Ef aðkomulýsing Bláa hersins að hreinsuninni á Langanesi er skýrt dæmi um vinnuaðferðir Tómasar Knútssonar, þá má ætla að ekki sé mikið að marka þau orð sem hann hefur skreytt sig með í áranna rás.