Fyrir skemmstu skrifaði ég grein hér í blaðið þar sem ég benti réttilega á það hvernig Tómas Knútsson skreytti sig stolnum fjöðrum. Ekki hefur Tómas séð ástæðu til að mótmæla orðum mínum. Eins hefur stjórn hersins þagað þunnu hljóði. Þögn er sama og samþykki. Enda veit blái hermaðurinn upp á sig skömmina og hann veit einnig að ásökun mín er á rökum reist. Hann veit að umræddar fjaðrir eru ekki þær fyrstu sem hann skreytir sig með án tilefnis.

Eitt af því sem vakti athygli mína fyrir nokkru var að Blái herinn fékk verulega fjármuni til þess að hreinsa strendur Íslands. Í febrúar 2020 fékk herinn 2 milljónir króna frá umhverfisráðuneytinu vegna verkefnis sem ber heitið Plasthrein­asta landhelgi í heimi. Google, sem þekkir allt og alla, kannast eiginlega ekkert við þetta verkefni og það virðist enginn þekkja það nema ráðuneytið, forseti Íslands og Blái herinn. Ég geri ráð fyrir að þetta hljóti að vera einhvers konar hernaðarleyndarmál en þætti samt sem áður vænt um ef einhver gæti komist að því um hvað verkefnið snýst – þetta er styrkt með fjármunum skattgreiðenda. Í bráðum tvö ár hefur þessi styrkur verið í höndum Bláa hersins en framkvæmdirnar eru engar. Allavega sjást þær hvergi. En ef ekki hefur verið framkvæmt það sem ætlað var að framkvæma fyrir styrkinn, þá ber styrkþega að endurgreiða að fullu.

Upphrópanir um afrek

Nánast það eina sem fram kemur um starfsemi Bláa hersins á heimasíðu hans og Facebook, eru myndir af jeppa sem Blái herinn fær frá Toyota, myndir af kerru sem er merkt Brimi og svo yfirlýsingar um ágæti Bláa hersins, forystuhlutverk hans í hreinsun strandlengjunnar og upplýsingar um gríðarlegt magn rusls. En tonnin eru þó í engu samræmi við það sem kemur fram í ársskýrslum. Ársskýrslurnar eru reyndar afar misvísandi en skemmtileg lesning þar sem skreytni virðist ráða ríkjum í bland við barnalegt málfar. Ársskýrslurnar virðast allar hreinn tilbúningur. Þar eru tíunduð fjölmörg verkefni sem aldrei hafa verið framkvæmd, þar er kastað fram tölum sem stangast á við aðrar tölur. Alls staðar þar sem Tómas fór einn til verka er talað um að Blái herinn hafi verið að verki. Nefnd eru hjákátlegustu smáatriði og allar tölur ýktar. Ég hef tekið afrit af öllum skýrslum og farið vandlega í gegnum allan pakkann. Þarna er svo sannarlega að finna stolnar fjaðrir.

Ég skoðaði ársreikninga Bláa hersins, sem var reyndar afar erfitt að nálgast. Það kostaði mig japl, jaml og fuður að fá ársreikning fyrir árið 2019. Sá reikningur er þó ekki annað en þunnt plagg. Framkvæmdastjórinn, Tómas Knútsson, og stjórnarformaðurinn, Hrönn Ólína Jörundsdóttir, svöruðu mér með tölvupósti og vildu meina að ég væri með aðför að frjálsum félagasamtökum þegar ég bað um ársreikning félagsins. Tómas sagði að Blái herinn þyrfti ekki að skila ársreikningi. En reglur segja annað. Þegar ég tjáði þeim að vegna ritgerðar sem ég hafði í hyggju að rita, þyrfti ég að fá ársreikninga síðustu tíu ára, tjáði Tómas mér að reikningarnir hefðu glatast í húsbruna. Hann taldi þó að bókarinn ætti kannski eitthvað. Upp úr krafsinu hafði ég ársreikning tveggja ára – 2016 og 2019. En ef samtökin eru stofnuð 1998 þá vantar 20 ársreikninga. Reikningarnir eru undarleg lesning; í áritun er að finna þessa yfirskrift: „Til stjórnar og eigenda Bláa hersins.“ Þar koma fram nokkrar styrkveitingar til samtakanna. Það er þó einkar merkilegt að félagasamtök geti fengið styrki – ár eftir ár – án þess að skila ársreikningi. Reyndar er þetta lögbrot. Enda má eflaust leita leiða til að lögsækja ríkisvald sem veitir styrki með ólöglegum hætti. En það er nú önnur saga.

Húsaleiga en engar eignir

Að mínu viti fullnægir þetta félag ekki þeim skilyrðum sem sett eru fyrir því að fá rekstrarstyrk frá ráðuneytum á Íslandi. Í ársreikningi sést að herinn fékk eina miljón til rekstrar á árinu 2020, reikningarnir eru ekki endurskoðaðir og þar að auki er styrkur sem veittur var frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fyrir árið 2019 ekki talinn fram í tekjuhlið ársreikningsins. Það vekur líka athygli að félagið á engar eignir – ekki eina krónu á bankareikningi. Verulegur hallarekstur er á starfseminni árin 2017 og 2018 en hagnaður árið 2019. Eitt árið greiðir herinn himinháa húsaleigu (þ.e.a.s. 2019, alls u.þ.b. fjórar milljónir vegna húsnæðis, jafnvel þótt eignir séu engar. Engar eignir – en yfir 300.000 í leigu á mánuði. Þetta hlýtur að vekja athygli). Hitt árið er engin húsaleiga tilgreind, (þ.e.a.s. 2017, alls 0,0 kr. í kostnað vegna húsnæðis. Fyrir allt árið 2016 voru að vísu greiddar 243.000 kr. í húsaleigu. Svo kostar 250.000 kr. að flytja engar eigur í nýtt húsnæði. Þetta hlýtur að vera fáheyrt. Hverjum ætli húsaleigan hafi verið greidd?

Þetta mátti lesa í Fréttablaðinu 18. október 2018: „Er á götunni með Bláa herinn“. En engu að síður er herinn eignalaus. Hér er ekki alveg rétt gefið eða ekki rétt með farið. Barlómurinn á allavega ekki við rök að styðjast. Ekki þarf að skjóta skjólshúsi yfir það sem er ekki til.

Brot á lögum

Þau eru orðin mörg árin sem Blái herinn hefur verið styrktur af ríkisvaldinu. Enda virðist útlitið fagurt við fyrstu sýn. Þær eru þó ótrúlega margar heimatilbúnu fréttirnar af afrekum hersins og gortað er af hverju handtaki – unnu sem og óunnu. Svo ómar barlómurinn ef ekki kemur nóg af seðlum. Það hlýtur einnig að teljast merkilegt að herinn hélt upp á 25 ára afmæli sitt í apríl 2020. En engu að síður eru samtökin stofnuð 1. apríl 1998. Skemmtileg lygi hér á ferð. Kannski aprílgabb. Eitt er víst að svona samtök eiga ekki að fá krónu í styrk ef þau skila ekki ársreikningi. Þannig er mælt fyrir í lögum á Íslandi. (Reglur um úthlutun verkefnastyrkja á sviði umhverfis- og auðlindamála). Þar kemur fram að styrkþegum beri að varðveita bókhald síðustu sjö ára. Einnig er lögð á það áhersla að ef umrætt verkefni fer ekki af stað fyrir árslok þess árs sem styrkurinn er veittur, beri félaginu að endurgreiða styrkinn.

Ekki veit ég hvort Tómas þessi Knútsson er yfirlýstur Sjálfstæðismaður. En ég hef oftsinnis heyrt af mönnum sem eiga allt undir því að vera flokksbundnir og hafa greiða leið að sjóðum. Sjóðirnir virðast vera Tómasi opnir, þrátt fyrir að hann skili ekki ársreikningi. Einhverja leið er hann látinn fara fram hjá laganna bókstaf. Reglur um almenna rekstrarstyrki til félagasamtaka sem starfa að umhverfismálum, segja okkur að félög verði að skila ársreikningi, hafa „opið og endurskoðað reikningshald.“ Svipaðar klásúlur er víða að finna í íslenskum lögum. Ekki veit ég til þess að önnur félög í þessum geira hafi komist hjá því að skila bókhaldi. Þetta segir mér að hér sé eitthvað annað en réttlæti látið ráða. Enda er víst að ekki er farið að lögum.

Orða fyrir orðagjálfur

Tómas Knútsson fékk fálkaorðuna fyrir að hreinsa fjörur landsins. Þær fjörur sem hann hefur hreinsað eru þó nær allar á Reykjanesinu – ef marka má ársskýrslur félagsins. Það getur vel verið að handhafar hinnar íslensku fálkaorðu þurfi ekki að lúta þeim skilyrðum sem sett eru af ráðuneytum. Ef svo er, þá sýnir eigandi Bláa hersins gott fordæmi. Það er kannski nóg að þeir láti sjá sig tvisvar á ári með forsetanum eða bandaríska sendiherranum við hreinsun stranda á Reykjanesi til þess að setja lúkurnar á bólakaf í ríkiskassann. Þessi her er reyndar eins og flestir vita ekkert annað en einn hávær hermaður. Og það er kannski nóg að menn skreyti sig stolnum fjöðrum annað slagið.

Ætlun mín er ekki að gera lítið úr Bláa hernum, það gera þeir sem skreyta sig stolnum fjöðrum. Þrátt fyrir allt, hefur herinn gert það gagn að vekja mikla athygli á plastmengun í hafinu umhverfis Ísland, þó svo að verk hans séu meiri í orði en á borði. Mig langar að það verði skoðað hvað býr að baki því magni af rusli sem Tómas segist hafa safnað úr fjörum landsins. Hvað er að marka þær tölur sem nefndar eru? Eru afrekin í raun og veru afrek? Hvers vegna fær herinn styrki þótt hann fari ekki að lögum varðandi ársreikninga?

Á heimasíðu félagsins, sem reyndar er afar rýr í roði, segir orðrétt: „Frá stofnun hefur Blái herinn verið fremstur í flokki í hreinsun stranda, hafna, lóða fyrirtækja og fleira á Íslandi. Á tímabilinu hafa farið yfir 76000 vinnustundir í meira en 300 verkefni með 9600 sjálfboðaliðum sem hreinsað hafa yfir 1.550 tonn af rusli úr náttúru Íslands. (…) Tómas var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu í janúar síðastliðin fyrir framlag sitt á vettvangi umhverfisverndar.“ (Þetta er orðrétt og óleiðrétt tilvitnun).

Ársskýrslur félagsins eru vart annað en afrekaupptalning, hreinn gorgeir og gjálfur, sem vart er mark á takandi. Þar er nánast einvörðungu talað um verkefni á Reykjanesi. Engu að síður talar eigandi Bláa hersins um hreinsun allrar strandlengjunnar og miklar sig af verkum um allt land án þess að gefa upp staði. Á heimasíðunni og á fésbókarsíðu er sagt að Blái herinn hafi gert þetta eða hitt. Allt tal um forustuhlutverk er orðum aukið, sparðatíningurinn er einstakur og stolnu fjaðrirnar á víð og dreif.