Við vitum ekki til þess að líf geti þróast á nokkrum öðrum stað í alheiminum en hér á jörðinni. Á jóladag var James Webb-geimsjónaukanum skotið út í geim frá Evrópsku geimstöðinni í Frönsku Gvæjana í Suður-Ameríku. Risasjónaukinn er talinn með helstu vísindaafrekum á þessari öld. Meðal verkefna hans er að leita að lífi annars staðar í alheiminum og reyna að varpa ljósi á hvernig heimurinn varð til.

Fyrstu myndirnar sem teknar voru af Jörðinni langt utan úr geimnum úr geimfarinu Voyager 1 árið 1990 sýndu heimkynni okkar í alveg nýju ljósi. Á myndinni birtist jörðin okkur sem örlítill viðkvæmur ljósblár depill einhvers staðar í óravíddum alheimsins.

Svo vitnað sé til orða Carls Sagan, hins fræga stjörnuvísindamanns og sjónvarpsmanns, þá er þessi litli ljósblái depill VIÐ og allt sem VIÐ eigum.Jörðin er eina heimili okkar. Á jörðinni búa allir sem við elskum, allir sem við þekkjum, allir sem við höfum nokkurn tíma heyrt um.

En hver myndi trúa því að við séum komin vel á veg með að eyðileggja þennan einstaka stað, litla bláa depilinn? Eins og fyrr segir var James Webb-sjónaukanum skotið upp frá Evrópsku geimstöðinni í Frönsku Gvæjana, sem staðsett er í stærsta frumskógi heims, Amazon-frumskóginum. Hann hefur stundum verið kallaður lungu heimsins. Svæðið gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í að binda koltvísýring (CO2) og framleiða súrefni. Mikilvægi Amazon felst hins vegar ekki síður í því að þar er að finna heimkynni dýra og plantna sem samanlagt mynda mesta líffræðilega fjölbreytileika á Jörðinni.

Engu að síður höfum við farið hamförum undanfarin ár og áratugi við að eyðileggja Amazon-skóginn, ryðja hann, brenna og þrengja að dýralífi hans svo hægt sé að stunda námuvinnslu á svæðinu. Þá hefur stór hluti frumskógarins verið brotinn undir landbúnaðarframleiðslu, einkum nautgriparækt.

Skeytingarlausir stjórnmálamenn eins og Jair Bolsonaro Brasilíuforseti komast upp með að eyðileggja Amazon sem líklegast er einhver dýrmætasti staður á Jörðinni í náttúrulegu tilliti. Þar með hefur mikilvægum náttúrulegum ferlum og jafnvægi sem eru hluti af hringrás lífs á Jörðinni verið illilega raskað.

Á sama tíma og við getum horft stolt á nýjasta vísindaafrek okkar, James Webb-risageimsjónaukann, sem enn eina sönnun þess hvers mannkynið er megnugt, erum við að fremja heimskulegasta verknað sem um getur. Við erum að eyðileggja náttúruna sem heldur okkur á lífi. Við erum að rústa litla bláa deplinum sem gæti verið einstakur í alheiminum.