Sólveig Anna Jónsdóttir varpaði sprengju í samfélagsumræðuna þegar hún tilkynnti að hún teldi sig tilneydda til að segja af sér sem formaður Eflingar.

Björnum ýmsum brá nokkuð við tíðindin á Facebook þar sem Björn Ingi á Viljanum sagði þetta óvænt og stórmerkilegt og vísaði síðan í barnaát byltinga.

Annar Björn, samfélagsrýnir í Grindavík, Birgisson talaði um „stór og mikil tíðindi“ þar sem byltingar­át kemur einnig við sögu: „Hallarbyltingin virðist hafa étið foringjann sinn.“

Bjarnargreiði

Björn Valur Gíslason, sjómaður og fyrrverandi þingmaður, er öðrum Björnum grimmari í sinni greiningu þegar hann segir að það sé „ákveðin tegund kúgunar þegar forystufólk stillir starfsfólki sínu upp frammi fyrir tveimur afarkostum eins og hér virðist hafa verið gert og gera það síðan ábyrgt fyrir því sem aflaga fór.“

Jakob Bjarnar, blaðamaður á Vísi, horfir aftur á móti á stóru myndina á sínum Facebook-vegg þegar hann segir öll fyrirbæri sem ætlað er að verja hagsmuni fjöldans fari „furðu fljótt að snúast um sjálf sig“ og „hagsmuni fólksins á skrifstofunni en ekki skjólstæðinganna“.

Og spyr síðan hvort þessi hafi ekki nákvæmlega verið sá veggur sem Sólveig Anna hljóp á.