Þessi grein er ætluð þér, lesandi góður, sem ert á aldrinum átján til fjörutíu ára og er bæði söguskýring sem þú trúir kannski ekki, en jafnframt hugsun fyrir þig til framtíðar.

Snemma í byrjun síðustu aldar voru menn á Íslandi á móti símanum. Aðeins seinna á síðustu öld voru menn á Íslandi á móti áfengisneyslu og sölu áfengis. Á sjöunda áratug síðustu aldar voru menn á Íslandi á móti sjónvarpsútsendingum og enn síðar voru menn á Íslandi á móti því að sjónvarpsútsendingar yrðu sendar út í lit! En haldið ykkur nú fast, því næsta söguskýring er nær ykkur í tíma. Seinni part síðustu aldar, og þetta er alveg satt, máttu Íslendingar ekki kaupa bjór á Íslandi og enginn Íslendingur gat drukkið bjór nema fá hann með ákveðnum krókaleiðum. Það voru sem sagt menn á Íslandi sem voru á móti því að Íslendingar mættu kaupa bjór. Eruð þið ekki hissa og kjaftstopp að heyra þessa söguskýringu?

Nú er ég ekkert sérstaklega að mæla með bjórdrykkju þótt mér finnist kaldur bjór í flösku góður, en jafnaldrar ykkar í Skandinavíu og annars staðar í Evrópu vita nákvæmlega hvað bjórinn sem þau drekka næsta sumar og þarnæsta sumar mun kosta í gjaldmiðli þeirra heimalands. Bjórinn mun kosta það sama og hann kostar í dag. Það eru menn á Íslandi sem eru enn á móti því að þið fáið að vita hvað bjórinn ykkar kostar í íslenskum krónum fyrir næstu jól!