Öryggismál sjófarenda hafa tekið stakkaskiptum á undanförnum áratugum. Þar gegna sjóbjörgunarsveitirnar ásamt slysavarnaskólanum Sæbjörgu lykilhlutverki. Sérhæfing í sjóbjörgun hefur ósjaldan skipt sköpum á neyðarstundu og orðið mörgum sjómanninum lífsbjörg, þetta vitum við sjómenn. Staðreyndin er sú að allir sjófarendur vita og treysta á að sjálfboðaliðar Landsbjargar séu ávallt til taks ef eitthvað bregður út af en þar er um að ræða stærstu samtök sjálfboðaliða á Íslandi með um 18 þúsund félögum.

Starfsemin miðar að því að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum. Í þeim tilgangi er öflugur hópur sjálfboðaliða til taks ef út af bregður, á nóttu sem degi, allt árið um kring. Þetta er þjóðinni ómetanlegt enda starfið ótrúlegt og reynsla mín er að þetta vekur ávallt undrun útlendinga. En þrátt fyrir að starfið sé unnið í sjálfboðaliðavinnu þarf mikla fjármuni, bara til að halda við og tryggja að björgunarsveitirnar hafi þau tæki og tól sem til þarf. Nú blasir til að mynda við að Landsbjörg þarf ný björgunarskip. Ætlunin er að endurnýja öll skip samtakanna og er þegar búið að semja um smíði nokkurra þeirra. Þarna þarf gríðarlega fjármuni til og björgunarsveitirnar sjálfar eru með alla anga úti. En blikur eru á lofti.

Nú háttar svo til að ýmsar af helstu fjáröflunarleiðum björgunarsveitanna eru í óvissu, meðal annars vegna andúðar á rekstri spilakassa og efasemda um notkun flugelda. Þarna ber löggjafinn mikla ábyrgð og ég sem andstæðingur spilakassa gengst við því. Hvernig verður fjármögnun björgunarsveitanna þá tryggð? Jú, sem fyrr verður öll þjóðin að fylkja sér á bak við samtökin og best væri ef allir létu smá upphæð af hendi rakna, helst með reglulegu millibili. En hugsanlega þurfum við að gera meira.

Nú þegar njóta björgunarsveitirnar ívilnana í ýmsu þegar kemur að aðföngum. En þar þarf að bæta í. Í mínum huga er enginn vafi á því að björgunarsveitirnar skila meiru til ríkisins en þær fá til baka. Hvernig getur ríkisvaldið þá stigið inn? Nú er það svo að björgunarsveitarfólki er ekki umhugað um að komast á bein fjárlög og það er að mörgu leyti skiljanlegt. En má ekki huga að því að efla enn frekar endurgreiðslur og undanþágur? Eins og gefur að skilja notar til dæmis skipafloti björgunarsveitanna mikið eldsneyti. Er ekki öfugsnúið að þær séu um leið að skila gjaldi í gegnum verðið til vegakerfisins uppi á landi? Ég tel einsýnt að björgunarsveitirnar verði undanskildar eldsneytisgjaldi og hyggst beita mér fyrir því. Við verðum að styðja við rekstur björgunarsveitanna. Oft var þörf en nú er nauðsyn.