Pylsuskandall skekur Þýskaland. Í síðasta mánuði afþökkuðu úkraínsk stjórnvöld heimsókn forseta Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, til Kænugarðs vegna tengsla hans við Pútín Rússlandsforseta. Kanslari Þýskalands, Olaf Scholz, kvaðst ekki mundu mæta ef Steinmeier mætti ekki koma líka. Sendiherra Úkraínu í Þýskalandi uppnefndi Scholz súra pylsu. „Þetta er ekki leikskóli,“ sagði sendiherrann, „heldur hrottalegasta útrýmingarstríð síðan nasistar réðust inn í Úkraínu“. Samstarfsmaður kom kanslaranum til varnar. „Scholz er ekki pylsa.“

Scholz er þó ekki – eins og pylsa – milli brauðsneiða, heldur milli steins og sleggju. Þótt mörgum Þjóðverjum þyki Scholz ekki gera nóg til hjálpar Úkraínu finnst öðrum hann hafa gert of mikið. Mótmælaköll yfirgnæfðu ræðu sem hann hélt nýverið í borginni Kíl í Norður-Þýskalandi. Samkvæmt nýrri könnun trúir einn af hverjum fimm Þjóðverjum rússneskum samsæriskenningum um stríðið. „Úkraína er full af nasistum,“ hrópaði einn mótmælendanna. Samflokksmaður Scholz var meðal áheyrenda. „Þau hefðu ekki mátt þetta í Rússlandi,“ sagði hann og andvarpaði. „En hér verðum við að láta þetta yfir okkur ganga því þetta er partur af lýðræðinu.“

Nýverið skrifaði ég pistil í Fréttablaðið þar sem ég gagnrýndi embættisverk Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Í kjölfarið fékk ég vinalegt tölvuskeyti frá lesanda sem lýsti því yfir í léttum dúr að við Bjarni yrðum líklega seint vinir.

Mér varð hugsað til breskrar þingkonu, Lauru Pidcock, sem var kjörin á þing árið 2017 fyrir Verkamannaflokkinn. Eitt af hennar fyrstu verkum var að lýsa því yfir að hún gæti aldrei orðið vinur Íhaldsmanns því íhaldið væri „óvinur“. Í blaðaviðtali stuttu síðar bætti hún um betur og sagðist ekki einu sinni geta hugsað sér að setjast niður yfir bjór með Íhaldsmanni.

Miklu verri

Bandaríski stjórnmálafræðingurinn Francis Fukuyama er þekktur fyrir að hafa í metsölubók árið 1992 lýst yfir „endalokum sögunnar“, fullnaðarsigri hins frjálslynda lýðræðis yfir stjórnarháttum á borð við harðstjórn og einræði. Fukuyama hefur nú slegið endalokunum á frest. Í nýútkominni bók viðurkennir Fukuyama að frjálslyndi sé í bráðri hættu. Hann segir undirstöðu frjálslynds samfélags – umburðarlyndi í garð ólíkra skoðana og virðingu fyrir réttindum einstaklingsins, lögum og reglum – vera á undanhaldi. Síðustu sextán ár hafi borgara- og stjórnmálaréttindi í heiminum farið minnkandi á meðan alræðisríkjum á borð við Kína og Rússland hafi vaxið ásmegin.

Fukuyama telur hinu frjálslynda lýðræði þó ekki stafa ógn af Pútín eða öðrum tegundum stjórnarfars. Hættan komi þvert á móti innan frá. Hann sakar okkur, sem búum við lýðræði, um að taka því sem sjálfsögðu. Sundruð í skotgröfum samtímans leyfum við skemmdarstarfsemi að viðgangast, annars vegar af hálfu hægri afla sem virða ekki leikreglur lýðræðisins í anda Trumps, hins vegar afla á vinstri vængnum sem vega að skoðana- og tjáningarfrelsinu með umburðarleysi í garð ólíkra sjónarmiða.

Væri ég til í að drekka bjór með Bjarna Benediktssyni? Ég veit ekki hvort Bjarni væri til í bjór með mér. Mér væri það hins vegar ljúft og skylt að drekka bjór með honum. Því það er grundvallarforsenda frjálslynds lýðræðissamfélags að geta verið ósammála án þess að vera óvinir.

Í dag ganga Íslendingar til sveitarstjórnarkosninga. Lýðræðið er oft, eins og Olaf Scholz fékk að finna, orðljótt, hávært, fullt af fávisku, rifrildum, málamiðlunum og mótsögnum. En við „látum það yfir okkur ganga“. Því aðrir kostir eru svo miklu verri. Gleðilegan kjördag!