Það eru góðar fréttir að hótelin í landinu hafi rétt úr kútnum eftir Covid. Í venjulegu ári anna hótelin hins vegar engan veginn þeim straumi ferðamanna sem heimsækja okkur á sumrin og margir reiða sig á íbúða- og herbergjaleigu í gegnum Airbnb. Í því felast frábær tækifæri fyrir Íslendinga sem vilja njóta sumarfrísins annars staðar en á Íslandi og sýna börnunum sínum heiminn.

Ferðamannastraumurinn til Íslands hefur ekki aðeins tryggt okkur fjölbreyttara atvinnulíf og auknar gjaldeyristekjur, heldur hefur ferðafrelsi okkar sjálfra stóraukist því fleiri flugfélög fljúga til og frá landinu á mun betri kjörum. Við það bætist að þau sem það vilja geta tileinkað sér hinn sanna og upprunalega tilgang Airbnb og boðið heimili sín erlendum ferðamönnum í því skyni að komast sjálf í sumarfrí til áfangastaða sem þau hefðu annars ekki efni á að heimsækja.

Hótelkeðjurnar og stjórnvöld hafa horn í síðu Airbnb og sambærilegra fyrirtækja. Hótelin hafa áhyggjur af samkeppninni og breyttum þörfum ferðalanga því vanir ferðamenn hafa uppgötvað hvað það er frábært að búa á raunverulegu heimili. Stjórnvöld hafa áhyggjur af því að húsnæði sem ætti að tryggja íbúum landsins þak yfir höfuðið sé í of miklum mæli í skammtímaleigu til ferðamanna. Sett hefur verið upp strangt kerfi í kringum útleiguna og þeir sem brjóta reglurnar eiga yfir höfði sér þungar sektir.

Sú leigustarfsemi sem er iðkuð gegnum Airbnb á Íslandi er í tveimur aðskildum heimum. Annar tilheyrir fyrirtækjum sem eiga fjölda íbúða, innréttuðum sérstaklega til skammtímaleigu, í eins konar hótellíki. Hinn heimurinn er íslensku fjölskyldurnar sem hafa uppgötvað hve eftirsótt gisting á venjulegum íslenskum heimilum er.

Við sjáum þetta sjálf sem skipuleggjum frí út á land í sumar. Gistingin er fokdýr um allt land. Og rúsínan í pylsuendanum er að eignir úti á landi, sem áður voru óseljanlegar og verðlausar, öðlast nýtt virði.

Andlausar fjöldaframleiddar íbúðir gróðafyrirtækja, gera hvorki mikið fyrir ímynd Íslands sem áfangastaðar né fyrir íbúa landsins sem eru í húsnæðishrakningum. En sjálfsbjargarviðleitni Íslendinga sem vilja leigja heimili sín út, hvort heldur er til að komast sjálfir í draumafríið eða til að létta erfiðar afborganir, er góð viðbót við íslenska ferðaþjónustu. Hún hækkar þjónustustig okkar sem ferðamannalands, stækkar sjóndeildarhring þeirra sem vilja fara þessa leið og bætir lífsgæði þeirra.