Nú líður að því að forystufólk þjóðarinnar telji niður í beina útsendingu. „Eftir erfið misseri hillir nú undir lok faraldursins og bjartari tímar eru í vændum,“ segja þau örugglega, eða eitthvað í þá áttina. Ég hef áður heyrt um þessa bjartari tíma, þeir virðast koma hver einustu áramót, þannig að það er raunar kraftaverk að við séum ekki öll blind sökum ofbirtu.

Ég þekki líka svartnættið, þær myrku nætur sálarinnar þar sem ljósið er fjarri manni. Mér var bjargað úr því myrkri, en minnstu mátti muna. Vinir gistu sitt hvorum megin við mig til þess að tryggja að ég lifði nóttina af og foreldrar mínir fylgdu mér á bráðamóttöku geðdeildar næsta morgun.

Og ég þekki forréttindi. Ég er millitekjumaður, sonur millitekjufólks. Þegar ég var unglingur borguðu foreldrar mínir undir mig sálfræðitíma, í dag geri ég það sjálfur. Andlegt heilbrigði er á mínu forræði. Ég hef efni á því að vinna í sjálfum mér. Það hafa ekki öll, síður en svo. Mörg þurfa að djöflast í gegnum svartnættið alla ævi án þess að fá í hendurnar þau verkfæri sem við hin lánsömu fáum frá góðum sálfræðingi.

Það er ákvörðun. Það er meðvituð ákvörðun stjórnvalda að halda sálfræðiþjónustu frá hinum efnaminni. Á meðan hún er ekki niðurgreidd þá eru það forréttindi að vera andlega heilbrigð. Og allt tal um bjartari tíma sem ganga senn í garð beinast einungis að þeim efnameiri.

Ég minni á að hægt er að sækja stuðning að kostnaðarlausu ef þú ert að glíma við erfiðar hugsanir hjá:

Píeta samtökunum: 552-2218

Rauða krossinum: 1717 og 1717.is