Nýlega hlotnaðist mér og manninum mínum sá heiður að sjá hátíðarfrumsýningu af myndinni Svar við bréfi Helgu sem byggð er á skáldsögu Bergsveins Birgissonar. Myndin ber glæsilegum vexti íslenskrar kvikmyndagerðar gott vitni. Hún færir áhorfandann aftur til sögusviðs íslenskrar sveitamenningar á Ströndum á fimmta áratug síðustu aldar og segir sögu þeirra Bjarna og Helgu sem bjuggu hvort á sínum bænum og urðu ástfangin án þess að sú ást fengi að blómstra til fulls. Myndin lýsir vel flækjum lífsins og ástarinnar og margir sjá sig eflaust í einhverjum áskorunum sögupersónanna.

Á sama tíma færir sagan áhorfandann einnig inn á sögusvið eigin lífs. Hvaða ákvarðanir tökum við í okkar lífi og hvaða afleiðingar hefur það? Lífið er stutt, tíminn eins og sandur sem rennur sífellt áfram og hver ákvörðun skiptir máli. Hver dagur er hlaðinn viðhorfum, hugsunum, hegðun og litrófi tilfinninganna. Sú ákvörðun sem skiptir kannski mestu máli er sú ákvörðun að vera á lífi, vera þakklátur fyrir þetta líf og nýta hvern dag eins og hægt er til að njóta þeirrar hamingju sem felst í andartakinu og lífsgöngunni. Við getum stundum verið vitur eftir á, ákvarðanir byggðu á þeim upplýsingum sem við höfðum á þeim tíma eða aðstæður voru okkur ekki hagstæðar. Þrátt fyrir það er mikilvægt að halda alltaf áfram og gefast ekki upp því þar sem er líf, þar er von.

Ég óska öllum aðstandendum myndarinnar til hamingju með sitt glæsilega framlag til íslenskrar kvikmyndalistar og höfundi bókarinnar þakka ég fyrir þessa sögu sem lætur engan ósnortinn.