Þegar við hjón eignuðumst í fyrsta skipti fasteign með bílskúr var gerður einfaldur samningur: bílskúrinn skyldi vera óskorað yfirráðasvæði eiginmannsins en frúin fékk á móti fullt ákvörðunarvald yfir öðrum fermetrum hússins. Þetta samkomulag hefur haldist þokkalega síðustu tvo áratugina enda aðilar sammála um að annað væri vart til farsældar fyrir hjónabandið.

Í okkar tilfelli er bílskúr þó sennilega vart réttnefni enda hefur bíll aldrei komið inn í skúrinn heldur hefur hann verið notaður sem geymsla alla tíð. Og það kom fljótlega í ljós að sama lögmál gilti um okkar bílskúr og allar aðrar geymslur – ef það er pláss þá fyllist það.


Eiginmanninum fylgir mikið af vélum og verkfærum svo ekki sé minnst á allar skrúfurnar og naglana. Það kom enda fljótlega í ljós að í bílskúrnum unir bóndinn hag sínum vel – endalaust virðist vera hægt að sýsla, taka til, raða og endurraða. Þessar gæðastundir hafa komið sér vel því bílskúrinn dregur að sér allt drasl sem fellur til á heimilinu og einhvern veginn er það svo að í lok hverrar viku er vart þverfótað í skúrnum fyrir dóti. Þetta þarf sá sem valdið fer með í skúrnum að fara í, enda falla ferðir á Sorpu með afrakstur vikulegrar tiltektar einungis niður í undantekningartilfellum.

En þessi háttur virðist viðhafður á mun fleiri heimilum en okkar, því ef bílskúrshurð sést opin eru flestir bílskúrar fullir af dóti og heimilisfeður á kafi í tiltekt. Enda virðist fátt toppa góðan laugardag hjá mínum við stúss í bílskúrnum, Sorpuferð og góðan fótboltaleik með kaldan bjór við hönd. Ætli slíkt eigi ekki við á fleiri heimilum!