Ég hafði svo­lítið gaman af bar­áttu­fólki fyrir bíl­lausum lífs­stíl gangandi með snjall­símann á lofti niður göngu­götuna á Lauga­veginum um daginn, taggandi lög­regluna með á­skorunum að senda allt til­tækt lið á þessa ráð­villtu öku­menn sem lulluðu á eftir þeim niður götuna. Göngu­götum er ekki lengur lokað með hliðum þannig að þeir sem ætluðu á rúntinn óku í staðinn inn í hat­rammar Insta-sögur og Twitter-þræði. Bíll á göngu­götu er nú­tíma­út­gáfan af van­helgun á hei­lögum reit.

Sam­göngu­mál eru enda­laus upp­spretta deilna. Annar hópurinn er á Twitter, hinn hringir í Reykja­vík síð­degis. Allir mjög sam­mála inn­byrðis, gífur­lega ó­sam­mála út á við. En hver er lausnin?

Bíllinn er enn­þá val­kosturinn hjá flestum, ekki út af ást á bílum eða and­úð á al­mennings­sam­göngum, heldur vegna þessarar ó­stjórn­legu at­orku­semi okkar; vinna, skutl á börnum, stúss fyrir í­þrótta­fé­lagið, kórinn, tóm­stundir, ræktin og allt hitt líka. Þetta út­heimtir snúninga og bíllinn hentar best til þess.

Til lengri tíma litið getum við þó ekki enda­laust teygt á borginni með til­heyrandi um­ferð og um­ferðar­mann­virkjum sem munu, óháð fjölda ak­reina, fyllast á háanna­tímum en standa tóm þess á milli.

Við þurfum að taka stórar á­kvarðanir. Ein slík er til dæmis Reykja­víkur­flug­völlur. Þótt ýmsir hafi tekið ást­fóstri við þau þægindi að hafa innan­lands­flug­völl á besta stað í borginni blasir við að það er slæm nýting á landi. Svipað og að minnka stofuna hjá sér til að bæta við stæði fyrir tjald­vagninn.

Leiðin til að bjarga þeim sem eru fastir í Ár­túns­brekkunni dag hvern er ekki meiri um­ferð, heldur minni um­ferð og þéttari borg.