„Ertu til­búin í sumar­fötin?“ heyrði ég heilsu­frömuð spyrja fylgj­endur sína á sam­fé­lags­miðli. Síðan komu ráð­leggingar um að drekka meira vatn og borða kol­vetnasnauðara fæði. Upp frá þessu fylltist síminn minn af gylli­boðum um tónaðri líkama. Mittis­mjórri. Á­lit­legri. Al­grím Goog­le telur nú að mig dreymi um betra boddí.

Megrun er merki­legt fyrir­bæri sem sögð er eiga rætur að rekja til Forn-Grikkja og er enn feyki­vin­sæl. Reiknað hefur verið út að um tveir af þremur yfir kjör­þyngd séu að jafnaði í megrun og fjórðungur fólks í eða undir kjör­þyngd. Þá hafa megrunar­kúrar verið tals­vert rann­sakaðir. Christop­her Gardner, prófessor við Stan­ford-há­skóla, taldi sig t.d. geta spáð fyrir út frá erfða­þáttum og insúlín­gildum hvort fitu­skert eða lág­kol­vetna­fæði henti betur. Þvert á spárnar hans sýndi rann­sóknin að það sem skiptir mestu máli eru matar­venjur. Fólkið sem missti flest kíló átti það sam­eigin­legt að breyta sam­bandi sínu við mat. Það verslaði ferskan mat, hafði reglu á matar­tíma, eldaði fyrir sig sjálft, setti mikið græn­meti á diskinn og hafði at­hyglina á matnum þegar það snæddi.

En af hverju erum við svona oft í megrun? Er mark­mið lífsins að líta sem best út í bikiní? Mun það raun­veru­lega breyta ein­hverju fyrir líðan okkar að losna við nokkur kíló? Nú get ég ekki full­yrt fyrir þig en rann­sóknir sýna að það sem gerir fólk á­lit­legast er góða skapið. Al­mennt séð þykir hamingju­samt fólk mest að­laðandi.

Berg­málið um betra bikiní­boddí heldur lík­lega á­fram að elta mig, en þess í stað ætla ég að taka mitt boddí í sátt og ekki ein­blína á kíló. Líður okkur ekki ein­mitt best þegar við borðum hollt, hreyfum okkur, sofum vel og höfum gaman?