Til stóð að ég myndi ferðast heil ósköp til útlanda síðustu tvö ár. Úr því varð ekki. Flensan skemmdi plönin og hef ég meira og minna haldið mig heima við. Útilegur leystu útlönd af hólmi.

Ég þoli ekki útilegur. Þær eru eitthvert hræðilegasta form afþreyingar sem ég veit um. Óskiljanlegar. Þegar ekki rignir, neyðist maður til að sitja á taustól klæddur dúnúlpu, húfu og vettlingum, með teppi utan um axlirnar þar sem maður berst við að halda kvöldmatnum kyrrum í vindinum. Í logni laumar maður matarbita eða vínglasi úr plasti undir netið sem hylur andlitið svo nýjasti landneminn, lúsmýið, éti ekki úr manni augun. Eftir að hafa vaskað upp plastdiska við innganginn á stífluðu karlaklósettinu sofnar maður hríðskjálfandi í fjögurra gráðu kulda, einungis til að vakna nokkrum tímum síðar í 40 gráðu heitu tjaldi, kófsveittur og hlandsprunginn. Þvílíkur lúxus.

Lengi hafði ég beðið fyrstu utanlandsferðarinnar. Til hvaða hitabeltisparadísar skyldu vegir mínir liggja, hugsaði ég með mér í allan vetur. Þótt Norður-Írland hafi ekki beinlínis ofsótt drauma mína þá endaði ég þar. Enginn ferðabæklingsáfangastaður en samt skrambi gott. Eftir eilífa Íslandsdvöl í núll til tíu gráðum, var þetta eins og að koma til Karíbahafsins. Átján stiga hitinn ögraði líkamanum og á augabragði urðu ljósbláar skyrtur dökkbláar. Þar sem ekki gafst tími til að sauma skyrtu úr dömubindum þurfti ég að þola niðurlæginguna sem fylgdi því að sitja kófsveittur fund eftir fund. En mikið var gott að sleppa við útileguna.