Árum saman hafa verið hér langir biðlistar vegna liðskiptiaðgerða. Farið var í átak til þess að ná þessum biðlistum niður. Það er auðvitað fullbratt að segja það átak ekki hafa skilað neinum árangri. Engu að síður má færa rök fyrir því að átakið hafi ekki skilað tilætluðum árangri þar sem oftar en ekki náðist ekki að klára það fjármagn sem ætlað var til átaksins á ári hverju. Fyrir því geta verið margar ástæður. En augljóslega hefur þó ekki tilætluðum fjölda aðgerða verið náð.

Einhverjir tugir manna sem lengi hafa verið á þessum biðlistum hafa getað nýtt sér EES tilskipun og farið í aðgerð á einkasjúkrahúsi í Svíþjóð eða í öðru EES-landi fyrir nærri þrefaldan þann kostnað sem aðgerð hérlendis kostar. Felst þessi mikli kostnaður einkum í því að Sjúkratryggingar Íslands, greiða auk kostaðar við aðgerð, ferða og upphaldskostnað sjúklings og í flestum tilfellum fylgdarmanns líka. Í einhverjum tilfellum kostar svo aðgerðin sem slík meira ytra en hún gerir hér á landi.

Það eru þó fjarri því allir sem tilskipunin fellur undir hafi burði til þess að fara þá leið. Sjúklingar þurfa sjálfir að annast öll samskipti við erlendar sjúkrastofnanir sem Sjúkratryggingar Íslands samþykkja, jafnvel á tungumáli sem þeir kunna lítil skil á, finna sér íverustað á meðan dvölinni ytra stendur og hafa með sér fylgdarmann til aðstoðar.

Það má reyndar vel halda því fram að það sæti furðu, að Sjúkratryggingar Íslands, meti ekki önnur sjúkrahús hérlendis en ríkisrekin, hæf til þess að framkvæma þessar aðgerðir með kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga. En telji erlend sjúkrahús betur til þess fallin, þrátt fyrir að sú leið sé mun dýrari.

Svo er til annar hópur manna af þessum biðlistum, sem að með einhverjum hætti hafa tök á því að greiða fyrir þessar aðgerðir úr eign vasa sem panta sér og fara í aðgerð á Klíníkinni við Ármúla.

Ítrekuðum boðum frá Klíníkinni um að vilja taka að sér hluta þeirra aðgerða sem sárkvalið fólk bíður eftir að komast í hefur jafnan verið neitað af íslenskum stjórnvöldum og það þrátt fyrir að starfssemi þess sjúkrahúss hafi vottum frá landlækni um að geta og mega gera slíkar aðgerðir. Enda væru ofangreindar aðgerðir fullborgandi sjúklinga varla framkvæmdar væru þær bannaðar.

Það hlýtur að vera nánast borðleggjandi, sé litið til ábyrgrar ráðstöfunnar skattfjár að Sjúkratryggingar Íslands, í stað þess að greiða nánast þrefalt fyrir aðgerð erlendis með ferða og upphaldskostnaði, semji við Klíníkina eða aðrar sjúkrastofur hér á landi sem hafa til þess tilskilin leyfi um að framkvæma hluta þessara aðgerða. Miða mætti við þann hóp sem öðlast hefur rétt til þess að leita til útlanda í aðgerð, þ.e. þá sem verið hafa þrjá mánuði eða lengur á biðlista eftir aðgerð. Væri sú leið farin myndi áður en langt um líður komast mun betra lag á þessi biðlistamál og biðin eftir aðgerðum færast nær því viðmiði sem að stjórnvöld hafa sjálf sett sér. En viðmið stjórnvalda eru þau að enginn þurfi að bíða lengur en þrjá mánuði eftir aðgerð.

Ein helstu rök stjórnvalda gegn því að útvista þessum aðgerðum að hluta til einkarekinna stofa hérlendis, hafa verið þau, að ekki sé gott að dreifa svona sérhæfðri þekkingu víða innan jafnlítils heilbrigðiskerfis og það íslenska er. Læknar og hjúkrunarfræðingar þurfa ákveðinn fjölda aðgerða á ári til að halda sér í æfingu. Svona eins og flugmenn þurfi ákveðið marga flugtíma á ári. Það má þó alveg slá því föstu að íslenskt heilbrigðisstarfsfólk þjálfast ekkert á aðgerðum sem framkvæmdar eru í öðru landi.

Þessi rök halda líka ekki vatni á meðan segja má að hér sé offramboð á sjúklingum og að senda verði töluverðan fjölda þeirra til útlanda í aðgerðir. Aðgerðir sem Klíníkin gæti hæglega sinnt fyrir ca. 30% af þeim kostnaði sem hlýst af því að senda fólk utan í aðgerðir.

Önnur rök sem heyrast líka eru þau, að ekki sé það hægt að „einkaaðilar út í bæ“ græði á veikindum fólks. Á móti hlýtur þó að mega spyrja hvort það sé réttlætanlegt að fjöldi manna þurfi að taka á sig margra mánuða vinnutap og engjast um af kvölum bryðjandi sterk verkjalyf?

Að lokum má svo spyrja og er það kannski stærsta spurningin og sú sem mestu máli skiptir:

Er íslenska heilbrigðiskerfið fyrir þá sem þurfa nota það eða þá starfa innan þess?