Þjóðhátíðardagurinn er runninn upp, dagur sem minnir okkur á að elska, byggja og treysta á landið. Þessi skilaboð eiga ekki alveg upp pallborðið í samtíma sem tortryggir um of gömul og góð gildi og flokkar jafnvel blíða ættjarðarást sem hættulega þjóðrembu.
En á degi eins og þessum látum við neikvæðni nöldraranna ekki ræna okkur gleðinni. Við erum kannski orðin of gömul til að kaupa blöðrur og ganga í skrúðgöngu en við fögnum í hjartanu. Gleðilegan þjóðhátíðardag!
Þessi dagur, 17. júní, minnir okkur á hina fögru og dýrmætu náttúru landsins. Og þá er nánast óumflýjanlegt að leiða hugann að mikilvægi þess að vernda hana. Sem betur fer á íslensk náttúra öfluga talsmenn, eins og komið hefur í ljós á síðustu dögum þegar grimmar umræður voru á Alþingi vegna rammaáætlunar þar sem fögur svæði voru færð úr verndarflokki í biðflokk.
Einn þingmanna Vinstri grænna, Bjarni Jónsson, klökknaði í ræðustól vegna tilhugsunar um að náttúruperlum í sveit hans yrði fórnað fyrir virkjanir. Hann er sannarlega ekki einn um að fyllast sorg vegna þessa. Um allt land er fólk sem tekur sér stöðu með náttúrunni og er tilbúið að berjast af hörku fyrir hana.
Einn stjórnmálaflokkur á Alþingi, Vinstri græn, hefur umfram aðra flokka tengt sig við náttúruvernd. Aðrir flokkar hafa ekki sýnt henni áberandi áhuga. Þess vegna urðu ýmsir hvumsa þegar stjórnarandstaðan þusti upp í ræðustól Alþingis til að lýsa yfir áhuga sínum á því að vernda íslenska náttúru. Þetta voru mjög skyndileg og alls óvænt hamskipti en samt gleðileg. Vonandi eru þau komin til að vera.
Og aftur að Vinstri grænum. Vissulega byggir samstarf ólíkra stjórnmálaflokka á málamiðlun og einhvers konar eftirgjöf, en ætli Vinstri græn að viðhalda trúverðugleika sínum geta þingmenn hans ekki skyndilega horfið af náttúruverndarvaktinni bara vegna þess að þeir eru í samstarfi við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk. Líklegt er að þingmenn Vinstri grænna, þar á meðal forsætisráðherra landsins, geri sér fulla grein fyrir þessu.
Ágætur þingmaður Vinstri grænna, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sagði á þingi í umræðum um rammaáætlun að hér væri um að ræða biðleik í náttúruvernd. Orð hans benda til þess að þótt Vinstri græn virðist fara sér hægt, sýnist jafnvel vera að taka skref til baka, þá sé um að ræða biðleik. Þau ætli sér að taka slaginn fyrir náttúruna en bíði eftir rétta tímanum. Þá gæti farið að hrikta verulega í ríkisstjórnarsamstarfinu.