Þjóð­há­tíðar­dagurinn er runninn upp, dagur sem minnir okkur á að elska, byggja og treysta á landið. Þessi skila­boð eiga ekki alveg upp pall­borðið í sam­tíma sem tor­tryggir um of gömul og góð gildi og flokkar jafn­vel blíða ætt­jarðar­ást sem hættu­lega þjóð­rembu.

En á degi eins og þessum látum við nei­kvæðni nöldraranna ekki ræna okkur gleðinni. Við erum kannski orðin of gömul til að kaupa blöðrur og ganga í skrúð­göngu en við fögnum í hjartanu. Gleði­legan þjóð­há­tíðar­dag!

Þessi dagur, 17. júní, minnir okkur á hina fögru og dýr­mætu náttúru landsins. Og þá er nánast ó­um­flýjan­legt að leiða hugann að mikil­vægi þess að vernda hana. Sem betur fer á ís­lensk náttúra öfluga tals­menn, eins og komið hefur í ljós á síðustu dögum þegar grimmar um­ræður voru á Al­þingi vegna ramma­á­ætlunar þar sem fögur svæði voru færð úr verndar­flokki í bið­flokk.

Einn þing­manna Vinstri grænna, Bjarni Jóns­son, klökknaði í ræðu­stól vegna til­hugsunar um að náttúru­perlum í sveit hans yrði fórnað fyrir virkjanir. Hann er sannar­lega ekki einn um að fyllast sorg vegna þessa. Um allt land er fólk sem tekur sér stöðu með náttúrunni og er til­búið að berjast af hörku fyrir hana.

Einn stjórn­mála­flokkur á Al­þingi, Vinstri græn, hefur um­fram aðra flokka tengt sig við náttúru­vernd. Aðrir flokkar hafa ekki sýnt henni á­berandi á­huga. Þess vegna urðu ýmsir hvumsa þegar stjórnar­and­staðan þusti upp í ræðu­stól Al­þingis til að lýsa yfir á­huga sínum á því að vernda ís­lenska náttúru. Þetta voru mjög skyndi­leg og alls ó­vænt ham­skipti en samt gleði­leg. Vonandi eru þau komin til að vera.

Og aftur að Vinstri grænum. Vissu­lega byggir sam­starf ó­líkra stjórn­mála­flokka á mála­miðlun og ein­hvers konar eftir­gjöf, en ætli Vinstri græn að við­halda trú­verðug­leika sínum geta þing­menn hans ekki skyndi­lega horfið af náttúru­verndar­vaktinni bara vegna þess að þeir eru í sam­starfi við Sjálf­stæðis­flokk og Fram­sóknar­flokk. Lík­legt er að þing­menn Vinstri grænna, þar á meðal for­sætis­ráð­herra landsins, geri sér fulla grein fyrir þessu.

Á­gætur þing­maður Vinstri grænna, Guð­mundur Ingi Guð­brands­son, sagði á þingi í um­ræðum um ramma­á­ætlun að hér væri um að ræða bið­leik í náttúru­vernd. Orð hans benda til þess að þótt Vinstri græn virðist fara sér hægt, sýnist jafn­vel vera að taka skref til baka, þá sé um að ræða bið­leik. Þau ætli sér að taka slaginn fyrir náttúruna en bíði eftir rétta tímanum. Þá gæti farið að hrikta veru­lega í ríkis­stjórnar­sam­starfinu.