Þegar ég ákvað að stíga inn á stjórnmálasviðið í vor tók ég ákvörðun um að mitt fyrsta verk yrði að berjast fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Á undanförnum árum höfum við heyrt átakanlegar sögur af ofbeldinu sem fólk hefur orðið fyrir, bið þess eftir réttlæti og vonbrigðunum þegar réttarkerfið hefur brugðist því. Við í fjölskyldunni minni þekkjum þessi mál af sársaukafullri eigin raun. Við þekkjum það hvernig kerfin okkar bregðast og baráttu þolenda fyrir breytingum.

„Mér var nauðgað“ eru þrjú orð sem ekkert foreldri er búið undir að heyra 14 ára barn sitt segja í gegnum tárin. Klukkutímum síðar, eftir að hafa tilkynnt brotið og gefið fyrstu skýrslu, óraði okkur foreldrana aldrei fyrir því hvað biðin eftir réttlætinu yrði löng.

Rúmu ári eftir skýrslutökuna barst málið fyrst til saksóknara – og það var ekki fyrr en fimm árum frá upphafi málsins sem maðurinn var loksins dæmdur fyrir brot sitt, að brjóta gegn barni. Á þeim tíma kom í ljós að dóttir okkar var ekki sú eina sem hann hafði brotið á, heldur voru brotin að minnsta kosti níu talsins, flest framin á þeim fimm árum sem dóttir okkar beið eftir réttlætinu.

Þetta er þó ekki saga allra þolenda, enda bendir allt til þess að mikill meirihluti gerenda sæti aldrei ábyrgð fyrir brot sín. Fyrir vikið bera þolendur ekki fullt traust til lögreglu og dómstóla til að leiða mál þeirra til lykta með sanngjörnum hætti. Þessu vil ég breyta.

Það er mér því mikill heiður að mæla fyrir slíkum breytingum á Alþingi í dag, þingsályktunartillögu í sjö liðum sem miðar að því að efla meðferð kynferðisbrota í réttarkerfinu, vinna gegn kynferðisbrotum og efla stuðning við þolendur þeirra.

Flutningsmenn tillögunnar eru 13 talsins úr fimm flokkum, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, og ánægjulegt að sjá að úrbætur í jafn mikilvægum málaflokki skuli njóta þverpólitísks stuðnings. Það er von mín að þessi samstaða tryggi að þolendur ofbeldis og fjölskyldur þeirra þurfi ekki að bíða eftir réttlætinu.