Þegar Donald Trump forseti lét flytja bandaríska sendiráðið í Ísrael frá Tel Aviv upp til Jerúsalem ekki alls fyrir löngu héldu stjórnarherrar þar í landi mikla þakkarhátíð; og Ísraelsvinir vestan hafs og austan samglöddust þeim eins og vonlegt er, því nú þótti víst að önnur helztu ríki heims myndu brátt viðurkenna að Jerúsalem, öll og óskipt, væri lögmæt höfuðborg Ísraels, hvað sem hver segði.

Í þessum fagnaði miðjum hitti fréttamaður Sky-sjónvarpsins á götu í Jerúsalem útlending nokkurn, tók hann tali og spurði meðal annars hvernig á ferðum hans stæði. Manninum var greitt um svör, hann kvaðst hafa gert ferð sína vestan úr Bandaríkjunum gagngert vegna þess að nú hefði verið boðuð endurkoma Krists; mátti skilja svarið á þá leið að maðurinn vildi verða vitni að endurkomunni þarna í Jerúsalem. Með öðrum orðum: ákvörðun Trumps að flytja bandaríska sendiráðið til borgarinnar helgu var þessum Vesturheimsbúa slíkur meginviðburður að nú kæmi Kristur aftur til að dæma lifendur og dauða. Fréttamanninum láðist að spyrja, hvers vegna hann héldi að Kristur myndi setja dómstól sinn í skýjum beint yfir Jerúsalem eins og nú háttaði til í sögu mannkyns, í Jerúsalem ætti semsé heima tiltölulega fátt af kristnu fólki og endurlausnarinn hefði ekkert dómsvald yfir gyðingum og múslímum, sama hvað fylgjendur hans kynnu að álíta í þeim efnum. Slík athugasemd hefði reyndar engu breytt, því hér var greinilega á ferð eitilharður bókstafstrúarmaður, svonefndur evangelisti, og að líkindum úr sjálfu „Biblíubeltinu“. Liðlega fjórðungur allra Bandaríkjamanna skipar flokk evangelista og 80% þeirra kusu Donald Trump í forsetakosningunum 2016. Evangelistar hafa um áraraðir beitt sér stíft fyrir því innan Repúblíkanaflokksins að Jerúsalem verði viðurkennd sem höfuðborg Ísraelsríkis fyrir sakir stöðu hennar sem háhelgrar borgar.

Ekki er gagnrýnisvert að evangelistinn fyrrnefndi skyldi trúa því sem skrifað stendur um endurkomu frelsarans í helgum fræðum úr því að kristnu fólki er gert að trúa því að hvert orð Ritningarinnar sé fram gengið af guðs munni. En verði guð sakaður um „fake news“, þó ekki sé nema í einu versi, ónýtist Ritningin í heild. Sanntrúaðir gyðingar gefa hins vegar ekki baun fyrir Nýja testamentið, það er þeim eins og hvert annað villutrúarrit; hinn aldagamli dómur æðstu prestanna og öldunga lýðsins stendur þess vegna óhaggaður: að Jesús frá Nasaret væri svikapredikari, þættist vera Kristur, sonur guðs, og skyldi því líflátinn. Ísraelsríki hið nýja hefur ekki enn fyrir hönd feðranna veitt þessum sakamanni uppreisn æru (austantjaldsríkin sálugu veittu sumum pólitískum afbrotamönnum uppreisn æru í gröfinni!), enda óhægt um vik, þar eð Ísraelsmenn myndu þá viðurkenna að Jesús hefði í raun verið sá sem hann sagðist vera, guðs sonur, sem ylli síðan hinu: þeir yrðu að láta af biðinni eftir sínum eigin Messíasi. Mér er sem ég sjái framan í páfann í Róm daginn þann sem gyðingar fagna komu Messíasar; allt verður brjálað í hinum kristna heimi, tveir Messíasar stignir fram úr sömu spádómsritunum. Kristnir menn gætu þó fátt sagt, því þeir hugðu í fyrstu að þeim tækist að kristna gjörvalla Ísraelsþjóð, en það mistókst heldur betur. Af þeirri ástæðu er „Messíasarspursmálið“ óleyst.

Nei, hinn evangelíski ferðalangur úr Vesturheimi, staddur í Jerúsalem, var ekki trúfífl af þeim sökum að hann tryði á endurkomu Krists, það gera allir harðkristnir menn samkvæmt trúarjátningunni, heldur vegna þess að hann trúði því að ákvörðun Trumps forseta að flytja bandaríska sendiráðið frá Tel Aviv upp til Jerúsalem væri svo mikilvæg fyrir augliti föðurins á himnum að ekki gengi að bíða lengur með endurkomu sonarins.

Nú er frá því að segja að Donald Trump stóð nýlega fyrir kirkjudyrum í Washington D.C. og hampaði Biblíunni framan í sjónvarpsmyndavélar. Hló þá mestöll heimsbyggðin. Og margur mun hafa rifjað upp fyrir sér fræg orð: „Vei yður, þér hræsnarar.“ Ekkert slíkt hrín þó á Trump. Kunnugir heimildamenn hafa um það borið að hann lesi aldrei bækur, hvað þá helgar bækur, komist ekki fram úr lengri texta í einu en sem svarar síðu í brotinu A4, þá þrýtur máttinn. En gerir lítið til, Trump auglýsti ekki þarna fyrir kirkjudyrum trú sína eða lestrargetu, heldur var þetta bíó handa bandarískum evangelistum. Trump vildi sagt hafa: Munið á komandi kjördegi eftir okkur tveimur, guði og mér.

Auðvitað er skoplegt að forseti Bandaríkjanna skuli standa eins og haughani fyrir kirkjudyrum í höfuðborg landsins, en um leið grafalvarlegt. Þarna horfðum við upp á spekúlant, sjúkan af sjálfselsku („egómanískan“), sem settur er yfir mesta herafla heims, virðist þó hvorki skilja upp né niður í veröldinni, né nokkurt pólitískt viðfangsefni yfirleitt nema sem díl, góðan díl eða slæman díl, allt upp á gamlan móð í hótelbransanum þaðan sem hann er ættaður.

Getum við Íslendingar samt andað rólega? Varla, því öllum er hulið hvað þessum „félagsbróður“ okkar í Hvíta húsinu kann að þykja við hæfi, sitji hann við völd enn um fjögur ár og þarf í engu að hlíta dómi kjósenda að þeim loknum.

Sú var tíð, þ.e. eftir að Rússar kæfðu frelsisuppreisn bandamanna sinna, Ungverja, með hervaldi árið 1956, að þeim sem þetta ritar snerist hugur í varnarmálum Íslands og sá þar aðeins einn kost öðrum skárri, fyrst þjóðin orkaði ekki sjálf að verja hlutleysi sitt á háskasamlegum tímum: að spornað væri hart gegn framgangi stalínismans eins og Norður-Atlantshafsbandalagið var stofnað til. Þessu fylgdi að vísu hið megnasta óbragð: herseta landsins, hermang og annað miður þriflegt.

Nú gerir þetta gamla óbragð aftur vart við sig og er velgjulegt svo um munar, því hernaðarumsvif aukast að nýju í landinu, en Bandaríkjunum stýrir fáráður kaupahéðinn sem sáir um allar jarðir illindum og sundrungu og enginn veit hvað hann kann að brambolta frá einum degi til annars. Bágt er að vera ekki evangelisti og þrá endurkjör Donalds Trump, eina mannsins sem hrindir í framkvæmd ráðagerðum guðs á himnum.