Þær efnahagsaðgerðir sem stjórnvöld og Seðlabankinn hafa gripið til á síðustu vikum í því skyni að milda það þunga högg sem hagkerfið verður fyrir vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar eiga sér enga hliðstæðu í íslenskri hagsögu.

Á meðan aðgerðir stjórnvalda miða að því að skjóta tímabundnu skjóli yfir heimili og fyrirtæki, svo sem með því að fresta gjöldum, ábyrgjast helming brúarlána og taka á sig launakostnað þeirra sem lækka í starfshlutfalli, hefur Seðlabankinn gert það sem í hans valdi stendur til þess að blása lífi í lamað hagkerfið. Stýrivextir hafa aldrei verið lægri, útlánageta viðskiptabankanna hefur verið stóraukin og bankinn hefur boðað sín fyrstu kaup á ríkisskuldabréfum.

Þannig hafa peningamál og ríkisfjármál unnið saman í því augnamiði að bregðast við þeim bráðavanda sem við blasir í efnahagsmálum landsins. Það hefur skipt sköpum í varnarbaráttunni.

En betur má ef duga skal. Aðstæður í heimsbúskapnum hafa breyst hratt til verri vegar á allra síðustu vikum. Við siglum nú í gegnum efnahagskreppu sem er ólík öllum öðrum kreppum. Heilu samfélögin hafa lamast, stór hluti atvinnulífs um allan heim hefur stöðvast, tekjugrundvöllur fjölmargra fyrirtækja er brostinn og atvinnuleysi er að rjúka hratt upp.

Við þessari stöðu þarf að bregðast sem allra fyrst. Á meðan mögulegt er að vinda ofan af kröftugum og snörum aðgerðum þegar aðstæður batna geta of væg og síðbúin viðbrögð reynst okkur afar kostnaðarsöm til framtíðar.

Til dæmis er ekki víst að það tímabundna skjól sem stjórnvöld hafa veitt atvinnulífinu dugi lengur til. Skjólið hjálpar vafalaust mörgum fyrirtækjum að forðast gjaldþrot, í það minnsta á meðan faraldurinn gengur yfir, en það frestar aðeins vandanum um tíma. Skuldadagar munu renna upp fyrr en síðar.

Hætt er við því að skuldum vafin fyrirtæki muni hvorki hafa bolmagn né getu til þess að nýta þau tækifæri sem bjóðast þegar það rofar til með þeim afleiðingum að hagkerfið mun ekki ná þeirri viðspyrnu sem það þarf á að halda.

Áhrifaríkari aðgerðir – sem fælu í sér minni skuldsetningu fyrir fyrirtæki – gætu til að mynda falist í eftirgjöf gjalda, umtalsverðri lækkun skatta og hagræðingu í rekstri hins opinbera á móti, afnámi tryggingagjalds og fasteignaskatta og niðurfellingu skattskulda.

Auk þess að hjálpa fyrirtækjum að takast á við þann bráðavanda sem þau standa frammi fyrir væru slíkar aðgerðir til þess fallnar að lyfta þeim hratt upp úr öldudalnum þegar faraldurinn hefur loks gengið yfir.

Pistillinn birtist fyrst í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og fjármál.