Sögulega séð hefur íslenskt bankakerfi sjaldan staðið traustari fótum. Þær ströngu kröfur sem bönkunum hefur verið gert að uppfylla, sem grundvallast á evrópsku regluverki, eru flestar skynsamlegar og hafa aukið viðnámsþrótt þeirra þegar kreppir að. Sjónarmiðin sem togast á þegar rætt er um hversu langt eigi þar að ganga eru annars vegar varúðarkröfur og neytendavernd og hins vegar að starfsumhverfi bankanna sé með þeim hætti að það sé skilvirkt og hagkvæmt. Fjármálaáföll eru þjóðarbúinu dýr en óskilvirkt bankakerfi getur einnig grafið undan getu fjármálafyrirtækja til að þjóna fyrirtækjum og heimilum og þannig dregið úr hagvexti. Hvar þessi jafnvægispunktur liggur er viðvarandi viðfangsefni en fullyrða má að síðustu ár hafi varúð trompað flest önnur sjónarmið.

Lítum á nokkrar staðreyndir. Eiginfjárhlutföll íslensku bankanna, eins og rakið var í umfjöllun Markaðarins í vikunni, eru 23 til 27 prósent samanborið við 21 til 25 prósent hjá stóru norrænu bönkunum. Sé hins vegar litið til vogunarhlutfalls, sumpart betri mælikvarði á fjárhagsstyrk banka, standa íslensku bankarnir öðrum norrænum bönkum framar. Hjá þeim íslensku er það 13,6 til 15,4 prósent en stærstu norrænu bankarnir, svo sem Swedbank og Nordea, eru með 5,1 til 7,1 prósent. Vogunarhlutföll bankanna hér á landi eru því um tvöfalt til þrefalt hærri en vogunarhlutföll stærstu norrænu bankanna. Það skýtur þess vegna skökku við þegar látið er að því liggja að það sé einhver meiri háttar hætta í uppsiglingu, fyrir stöðu bankanna og hagkerfið, ef eigið fé þeirra verður lækkað lítillega. Öllum má vera ljóst að slíkur málflutningur er fjarstæðukenndur.

Það skýtur skökku við þegar látið er að því liggja að það sé einhver meiri háttar hætta í uppsiglingu, fyrir stöðu bankanna og hagkerfið, ef eigið fé þeirra verður lækkað lítillega

Bankarnir hafa staðið af sér kórónukreppuna betur en flestir þorðu að vona. Vegna sterkrar stöðu hefur Arion, einkabanki sem er skráður á markað, þá yfirlýstu stefnu að greiða út tugi milljarða af umfram eigin fé sínu til hluthafa, sem eru einkum íslenskir lífeyrissjóðir og verðbréfasjóðir, á komandi árum. Stjórnendur hans telja sig með öðrum orðum ekki geta náð þeirri ávöxtun á fjármagnið sem bankinn hefur sett sér og það sé því betur borgið hjá hluthöfum. Ríkið, sem eigandi Íslandsbanka og Landsbankans, gæti hæglega farið sömu leið með sérstökum arðgreiðslum sem væri þá um leið í samræmi við það ákall margra að bankarnir eigi að minnka. Það er ekki náttúrulögmál að nánast öll bein fjármögnun íslensks atvinnulífs þurfi að fara í gegnum bankakerfið.

Er eitthvað óeðlilegt við arðgreiðslur fyrirtækja? Oft mætti ætla að svo væri af umræðunni að dæma. Við þær aðstæður sem nú eru í hagkerfinu, þar sem eftirspurn fyrirtækja eftir lánsfé er takmörkuð, hafa bankarnir skiljanlega ekki hvata til að ýta undir útlánaþenslu. Það gilda sömu lögmál um banka og önnur fyrirtæki í atvinnurekstri. Ef þeir geta ekki ávaxtað það eigið fé sem er langt umfram kröfur eftirlitsstofnana, þá standa góð rök til þess að fjármagnið komi að betri notum í höndum hluthafa í stað þess að það sé læst inni í bönkum. Við þurfum nefnilega á því að halda að beina þolinmóðu fjármagni í fjárfestingu og neyslu.