Aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu hefur fært þjóðinni ótvíræðan ávinning á undanförnum áratugum. Í embættistíð minni hef ég lagt áherslu á að nýta enn betur þau tækifæri sem EES-samningurinn færir Íslendingum til athafnafrelsis og leitað leiða til að auka samvinnu við aðildarríki Evrópusambandsins með hagfelldum hætti fyrir Ísland.Nærtækt dæmi er þátttaka Íslands í samstarfsáætlun ESB ásamt hinum EFTA-ríkjunum innan EES.

Á næstu dögum verður gengið frá víðtækustu þátttöku Íslands í þessum áætlunum sem um getur frá gildistöku samningsins. Svo umfangsmikil þátttaka hefði ekki verið möguleg nema fyrir aðild okkar að EES. Hún felur í sér ný og fjölbreytt tækifæri fyrir rannsóknar- og vísindasamfélagið og íslensk fyrirtæki – ekki síst sprotafyrirtæki. Nú er boltinn hjá þeim.

Að sama skapi hef ég lagt mikla áherslu á að íslenskum fyrirtækjum verði sköpuð umgjörð til að koma að verkefnum innan Uppbyggingarsjóðs EES. Árangurinn talar sínu máli.Jarðhitaklasinn hefur til dæmis nýtt þessi tækifæri öllum hlutaðeigandi til hagsbóta. Ljóst er að mörg önnur tækifæri felast í þessari aðkomu íslenskra fyrirtækja.

Nú síðast hefur verið settur upp sérstakur gagnagrunnur um íslenska samstarfsaðila þar sem fyrirtæki geta lýst yfir áhuga á að starfa innan verkefna sjóðsins.

Þá hef ég lagt sérstaka áherslu á að efla hagsmunagæslu innan EES-samstarfsins og vegna annarra samninga okkar við ESB. Vinnan hefur verið gerð markvissari, meðal annars með skilgreiningu forgangsmarkmiða og skipulegri vinnu að þeim.

Sendiráð Íslands í Brussel hefur verið eflt með fastri viðveru allra ráðuneyta til að vinna málum framgang í EES-samstarfinu og gæta þess að hagsmunum Íslands sé haldið skýrt á lofti. Liður í því er bætt upplýsingagjöf til Alþingis svo þingið geti komið sjónarmiðum sínum fyrr á framfæri.Krafa Íslands vegna tilskipunar ESB um innstæðutryggingar er gott dæmi um mál þar sem þörf hefur verið á öflugri og skipulegri hagsmunagæslu.

Ég hef lýst því yfir, síðast á fundi með fyrirsvarsmönnum ESB, að forsenda þess að tilskipunin verði tekin upp í EES-samninginn sé að fyrir liggi sameiginlegur skilningur allra aðila um að ákvæði tilskipunarinnar kveði ekki á um ríkisábyrgð á innstæðum, enda sé það í fullu samræmi við niðurstöðu Icesave-málsins.

Þá fór ég fram á endurskoðun landbúnaðarsamnings Íslands og ESB þegar ljóst var að samningurinn virkaði ekki í þágu beggja samningsaðila. Það þarf málafylgju til tryggja hagsmuni okkar þar sem hver er sjálfum sér næstur. Við erum lánssöm að hafa nýtt fullveldi okkar til að gera samning eins og EES-samninginn. Hann er okkar mikilvægasti viðskiptasamningur og er sérsniðinn að okkar hagsmunum.

Við þurfum áfram að halda á lofti þeim ávinningi sem samningurinn færir okkur Íslendingum á sama tíma og við varðveitum fullveldið. Efld hagsmunagæsla og nýting þeirra tækifæra sem samningurinn skapar er árangursríkasta leiðin til þess – en er auk þess stöðugt verkefni sem enginn annar vinnur fyrir okkur.