Það væri að æra óstöðugan að byrja þennan pistil á því að minna á mikilvægi þess að grípa til aðgerða til að sporna við áhrifum manna á umhverfi sitt. En það er hér með gert og er það þá frá. En þá að eiginlegu efni pistilsins: samstarfi stjórnvalda og sjávarútvegs til að tryggja að markmið Íslands í loftslagsmálum náist. Samstarf þetta var undirritað á sólríkum föstudegi í fyrri viku og gefur dagurinn vonandi góð fyrirheit um árangur í því sem fram undan er.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lét þau orð falla við þetta tilefni að allir væru hluti af vandanum og því yrðu allir að verða hluti af lausninni. Það eru orð að sönnu. Eðli máls samkvæmt verður þó framlag sumra geira atvinnulífsins meira en annarra og misjafnt er hversu góð tækifæri atvinnuvegir hafa til að draga úr áhrifum á umhverfið.


Stærstu tækifærin


Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi gáfu út skýrslu haustið 2017 þar sem gerð er grein fyrir þeirri þróun sem orðið hefur í samdrætti í olíunotkun í sjávarútvegi. Samdrátturinn er mikill og frá árinu 2005 hefur hann verið 41%. Margir samverkandi þættir skýra þetta, en þeir stærstu eru vafalítið kerfið sem viðhaft er við veiðar á Íslandsmiðum, færri og afkastameiri skip, orkuskipti í fiskimjölsverksmiðjum, hagkvæmari veiðarfæri og framfarir í tækni. Hvað sem mönnum kann að finnast um fiskveiðistjórnunarkerfið, þá hefur það leitt til mun umhverfisvænni veiða og minni olíunotkunar. Losun frá sjávarútvegi hér á landi, bæði frá íslenskum og erlendum fiskiskipum, er um fimmtungur þess sem skrifast á ábyrgð Íslands. Af þessu sést hversu mikilvægt það er að draga úr losun í sjávarútvegi og hve mikilsvert framlag sjávarútvegs getur orðið, ef rétt er á málum haldið.

Stærstu tækifærin eru hins vegar í endurnýjun skipaflotans og nýrri tækni. Blómleg fjárfesting er hér lykilforsenda samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda.


Í aðgerðaáætlun stjórnvalda er stefnt að því að samdráttur í losun frá sjávarútvegi verði um 50-60% árið 2030, miðað við árið 2005. Að sumu leyti mun þetta hugsanlega gerast með betra ástandi fiskistofna og þar með auðveldari sókn. Stærstu tækifærin eru hins vegar í endurnýjun skipaflotans og nýrri tækni. Blómleg fjárfesting er hér lykilforsenda samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Rekstrarskilyrði sem sjávarútvegi eru sett af hálfu stjórnvalda, þurfa því að hvetja til frekari fjárfestinga. Það er ekki bara til að draga úr umhverfisáhrifum af veiðum, heldur einnig til þess að íslenskur sjávarútvegur standist alþjóðlega samkeppni á erlendum markaði, þar sem um 98 prósent af íslensku sjávarfangi eru seld.


Dregur úr samkeppnishæfni


Á grundvelli fyrrgreinds samstarfs, hefur fjármála- og efnahagsráðherra skipað starfshóp sem mun vinna með fulltrúum sjávarútvegsins að tillögum til að draga úr losun og auka kolefnisbindingu. Binda má vonir við að eitt fyrsta umræðuefni hópsins verði kolefnisgjaldið. Árið 2019 greiddi sjávarútvegur tæplega 2 milljarða króna í kolefnisgjald. Það má hafa á því vissan skilning að gjaldinu sé ætlað að hvetja til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Í einhverjum tilvikum kann það að gera það, en þó ólíklega í verulegum mæli. Fram hjá því verður ekki litið, að sjávarútvegur er grunnatvinnuvegur okkar Íslendinga og enn er ekki komin staðgönguvara sem nýta má alfarið í stað jarðefnaeldsneytis þegar kemur að fiskveiðum. Og það er vonandi ekki markmið stjórnvalda að draga úr fiskveiðum.

Að óbreyttu gerir kolefnisgjaldið lítið annað en að draga úr samkeppnishæfni sjávarútvegs og aftra fyrirtækjum frá fjárfestingum sem gætu leitt til samdráttar í losun. Stærstu framfaraskrefin í loftslagsmálum verða með öðrum orðum ekki stigin með áframhaldandi skattheimtu. Ef allir eiga að vera hluti af lausninni, líkt og fjármála- og efnahagsráðherra reifaði í fyrri viku, þá munu stjórnvöld vonandi huga að jákvæðum, efnahagslegum hvötum í sjávarútvegi, þannig að göfugum markmiðum í loftslagsmálum verði náð. Ef rétt er á spilum haldið, er áðurgreint markmið um 50-60 prósenta samdrátt í losun frá sjávarútvegi nefnilega innan seilingar.