Þing Norðurlandaráðs hefst í Stokkhólmi í dag en þetta merkilega samstarf norrænna þjóðþinga má rekja aftur til ársins 1952. Gildi norræns samstarfs fyrir Ísland og íslenskt samfélag er ótvírætt þótt ýmsum hætti til að tala það niður. Norðurlöndin hafa auðvitað hvert sína sérstöðu en deila um leið sameiginlegum gildum sem hafa stuðlað að uppbyggingu farsælustu samfélaga heims. Þegar kemur að alþjóðlegum samanburði raða Norðurlöndin sér yfirleitt í efstu sætin. Þar er mesta jafnréttið, þar er fólk hamingjusamast og spillingin minnst.

Norræn áhrif er að finna allt í kringum okkur. Þannig byggir íslensk löggjöf oftar en ekki á norrænum fyrirmyndum og það sama má segja um uppbyggingu stofnana samfélagsins. Það er vandfundin sú opinbera stofnun sem ekki á í norrænu samstarfi. Slíkt samstarf er ómetanlegt fyrir lítið samfélag eins og Ísland. Með því fæst aðgangur að mikilli þekkingu og ráðgjöf sem hin Norðurlöndin búa yfir. Þá njóta aðilar vinnumarkaðarins og ýmis fagfélög ekki síður góðs af samvinnu við norræn systurfélög. Það má heldur ekki gleyma menningunni sem er jú einn af hornsteinum norrænnar samvinnu. Grasrótarsamtök eins og Norrænu félögin gegna líka mikilvægu hlutverki í samstarfinu en þau fagna hundrað ára afmæli um þessar mundir.

Samfélagsgerð Norðurlandanna sem byggir á opnum lýðræðislegum ferlum, öflugu velferðarkerfi og jöfnuði á undir högg að sækja á ýmsum sviðum. Þess vegna var það ánægjulegt að heyra Silju Dögg Gunnarsdóttur, sem verður forseti Norðurlandaráðs á næsta ári, lýsa áherslum Íslands á formennskuárinu. Þar verður lögð sérstök áhersla á baráttuna gegn upplýsingaóreiðu og falsfréttum. Því miður hafa hægri popúlistar náð fótfestu á Norðurlöndunum með neikvæðum afleiðingum. Það er því ekki vanþörf á því að standa vörð um lýðræðið sem eitt af grunngildum norrænna samfélaga.

Norræna ráðherranefndin hefur sett fram metnaðarfull markmið um að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Norðurlöndin standa nú þegar mjög framarlega á þessu sviði og hafa til að mynda haft sameiginlegan vinnumarkað í 65 ár. Þá eru Norðurlöndin einnig í fremstu röð í umhverfismálum. Þar eru svo sannarlega tækifæri fyrir svæðið í heild til að gera enn betur. Með því að leggja sameiginlega áherslu á sjálfbærni, grænan hagvöxt og samfélagslega ábyrgð eru Norðurlöndin betur í stakk búin að takast á við áskoranir morgundagsins en þau eru ein og sér. Á tímum óvissu og glundroða í alþjóðasamfélaginu er samstaða og samstarf Norðurlandanna mikilvægt sem aldrei fyrr. Við Íslendingar eigum að hlúa enn betur að því.