Öllum skrefum áfram í átt að réttindum og frelsi fylgir hætta á bakslagi. Spurðu bara femínista, baráttufólk hinsegin samfélagsins eða hvaða minnihlutahóp sem er. Þau sem staðið hafa í stafni mannréttindabaráttu, að berjast fyrir því að öll eigi sömu réttindi, sömu tækifæri til að lifa, vinna, læra og elska, geta sagt varnaðarsögur af því þegar afturkippurinn kom.

Á þriðja áratug 20. aldar komu dugleg spörk í gömul, íhaldssöm gildi, sérstaklega í vestrænum borgum. Með kosningarétt í vasanum klipptu konur hár sitt, djömmuðu, fóru í skóla og vinnu og lýstu því yfir að þær væru líka kynverur. Lífleg samfélög hinsegin fólks mynduðust í stórborgum, þar sem fólk gekk hnarreist um og réttindasamtök leyfðu sér að vera hávær. Um áratug síðar var svo búið að traðka þessa frjálslyndu sprota niður. Ekki bara í ríkjum sem kenndu sig stolt við nasisma eða fasisma, heldur um allan hinn vestræna heim.

Bakslög verða því það eru ekki allir sannfærðir um að allir eigi í raun sömu réttindi og það sjálft. Þess í stað sé sumt fólk á einhvern hátt „afbrigðilegt“ [les. ekki jafngilt öðrum]. Og þar sem fólkið sjálft sé skör lægra en það sjálft séu réttindi þeirra það líka.

Austan og vestan við okkur eru sterk öfl sem vilja traðka niður frjálslynda garða. Sem segja að þetta mannréttindatal hafi gengið of langt. Því þurfi að koma böndum yfir konur, hinsegin fólk og aðra minnihlutahópa. Það þurfi að stjórna líkömum þeirra, ástum og tilveru. Háskólar megi ekki gefa þessum hópum vigt með því að rannsaka heiminn út frá sjónarhorni þeirra. Og allar þessar raddir eiga heima á Íslandi líka. Sem finnast réttindi annarra og tilvera minna virði en þeirra sjálfra. Því lýkur mannréttindabaráttu aldrei.