Vitaskuld hreiðraði mikil hneykslun og gremja um sig í hjörtum ýmissa einstaklinga þegar biskup Íslands, Agnes Sigurðardóttir, lýsti þeirri skoðun sinni í sjónvarpsviðtali að minnkandi traust til þjóðkirkjunnar megi rekja til siðrofs í samfélaginu. Þetta siðrof tengdi hún því að kristinfræði er ekki lengur kennd sem sérstakt fag í grunnskólum.

Fólk notar ekki alltaf heppilegustu orðin. Siðrof var kannski ekki besta orð sem Agnes gat notað í þessu samhengi. Flestir hafa þó örugglega gert sér grein fyrir að með orðum sínum um siðrof var biskup ekki að segja að börn landsins væru siðlaus eða að þjóðin væri óalandi og óferjandi. Ekkert í viðtalinu gaf það til kynna og auk þess hefði það verið algjörlega úr karakter fyrir Agnesi að lýsa slíkri skoðun, en hún hefur ætíð talað máli kærleika og umburðarlyndis. Ýmsir kusu samt að túlka orð hennar á versta veg. Það þykir henta.

Reyndar hefur það sýnt sig hvað eftir annað að Agnes má ekki tjá sig um trú og kristni án þess að ákveðnir hópar súpi hveljur og lýsi hneykslan sinni á samfélagsmiðlum. Þjóðkirkjan og biskupinn fara greinilega mjög í taugarnar á ýmsum.

Agnes Sigurðardóttir er biskup landsins og það er hlutverk hennar að standa vörð um kristna trú. Það hefur hún gert af mikilli staðfestu og heldur því ótrauð áfram. Vitaskuld er biskup fylgjandi því að biblíusögur séu kenndar í skólum og vill sömuleiðis að þeim sé haldið að börnum á heimilum landsins. Biskupi getur ekki staðið á sama um trúaruppeldi æsku landsins. Þetta blasir við og ætti ekki að hneyksla nokkurn mann.

Agnes hefur á embættistíð sinni reglulega fengið á sig mikla og harða gagnrýni og ekki ber mikið á því að farið sé í vörn fyrir hana. Það vekur til dæmis nokkra furðu hversu lítinn stuðning kynsystur hennar veita henni. Það er lítið gagn að því að blaðra fjálglega um mikilvægi samstöðu kvenna, það þarf að sýna hana í verki þegar þörf er á. Agnes Sigurðardóttir hefur allt of oft verið skilin ein eftir á berangri. Ekki verður annað séð en að hún taki því hlutskipti af kristilegu þolgæði. Er það vitanlega til fyrirmyndar í samfélagi þar sem kveinað er yfir minnsta mótlæti.

Kirkjunnar þjónar eiga að standa keikir jafnvel þótt eitthvað fækki í þjóðkirkjunni. Það er ekki eins og kirkjur landsins standi auðar þegar kemur að skírnum, fermingum og giftingum. Fólk er stöðugt að sækja í þjónustu kirkjunnar. Það þarf ekki að vera heittrúað til þess, það getur jafnvel haft litla trúarvitund. Það kemur samt í kirkjuna. Enginn er að draga það þangað. Það er að sækja í þjónustu sem það vill fá. Þjónustu sem hvílir á kristnum gildum. Þessu eiga kirkjunnar þjónar að fagna en ekki ganga hnípnir til starfa sinna. Kirkjan á sterkan hljómgrunn meðal landsmanna. Þannig mun það vera áfram, þrátt fyrir áköf hróp þeirra sem amast við kristinni trú.

Kirkjan á ekki að sýna uppgjöf heldur fagna hverjum þeim sem gengur inn í hús hennar.