Andlát Elísabetar drottningar markar tímamót í leiðtogasögu heimsins. Hún hitti meira að segja Trúman, sagði einhver í viðtali í gær. Lét hann samt örugglega ekki vita hvað henni fannst um atómbombuna. Níutíu og sex ára gömul, orðin léleg til morgundagsins, tók hún á móti nýjum forsætisráðherra Bretlands, trúnaðurinn við eigið embætti ofar öllu – tveimur dögum síðar skildi hún við.

Vangaveltur eru núna uppi um hvernig konungur Karl verði. Verður hann jafn skoðanaglaður og fjölþreifinn á málefnum samtímans og hann hefur verið? er einn hljómurinn í umræðunni. Það er auðvitað mjög frjálslega farið með að segja að Karl hafi verið skoðanaglaður maður. Karl hefur líka verið ötull í félags-, hjálpar- og líknarstarfi. Nú þarf hann að draga sig til baka af þeim vettvangi – „eðlilega“ sagði sérfræðingur um málefni konungsfjölskyldunnar, hann er jú konungur allra. Ojæja.

Valdatíð Elísabetar er byltingarsaga 20. aldarinnar – eitt mesta þróunar-, framfara- og átakaskeið í sögu Bretlands, sem og heimsins alls. Átök og framþróun í mannréttindamálum, sviptingar á alþjóðavettvangi og í Evrópusamstarfi, stjórnmál tveggja póla, stríð og friður, innlandsátök, náttúruhamfarir, veðurbreytingar og loftslagsvá.

Heimur sem særist, batnar og vex í veröld lýðræðis þar sem rödd og skoðun er allt.

Einmitt það sem Elísabet valdi að hafa ekki.

Saga Elísabetar er því saga fólksins sem lagði út á akurinn hvern dag og sáði í umræðuna – lagði stundum allt undir til að ná fram örlitlum breytingum hér og þar. Á meðan horfði hún út um hallargluggann og beið eftir nýjum forsætisráðherra.