Málefni barna og ungmenna er eitt mikilvægasta málefni sem við getum látið okkur varða og miklu skiptir að umgjörðin um velferð barna sé fagleg og sett saman af málefnalegum sjónarmiðum. Það verður að segja þá sögu eins og er að oftar hefur í fjölmiðlum verið fjallað um misbresti í starfsemi barnaverndar en það sem vel er gert.

Með Fréttablaðinu á fimmtudag fylgdi blað sem tileinkað var 112 deginum. Þar birtist viðtal við fyrrverandi skjólstæðing barnaverndarnefndar, Katrínu Salimu Dögg Ólafsdóttur. Þar lýsir hún til dæmis léttinum sem hún hafi fundið fyrir þegar lögreglumenn komu til að taka hana og tvíburasystur hennar og fjarlægja af heimili móður þeirra. Hún hafi aldrei fundið til ótta, heldur upplifað þá sem bjargvætti sem færðu þær loks á betri stað. Hún hafi, aðeins fimm ára að aldri, átt þá einlægu von að hennar biði betra líf. Í viðtalinu segir Katrín það lán og blessun hvernig barnaverndarnefnd stóð að málum þeirra systra. Þetta er saga af erfiðum aðstæðum sem fékk góðan endi. Ekki er svo um allar.

Undir lok viðtalsins segir Katrín: „Við erum lítil þjóð og þetta á ekki að vera flókið. Með yfirsýn og skilvirkni geta allar stofnanir talað saman: leikskóli, grunnskóli, lögreglan og barnavernd. Ekkert barn á að lifa við aðstæður eins og við gerðum. Við þurfum að hafa börnin í forgangi og bíða ekki með ákvarðanir heldur láta hagsmuni þeirra ráða frekar en móðurréttinn. Við systur vorum heppnar að komast heilar í gegnum þetta en sum börn þola verr við og ná sér aldrei á strik.“

Í samráðsgátt stjórnvalda hefur nýlega verið sett frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra um breytingar á lögum um barnavernd. Þar veit á ýmislegt til framfara í málefnum barnaverndar.

Við sem búum hér á suðvesturhorni landsins áttum okkur kannski ekki öll á því hvaða áskorun það er að sinna barnavernd í fámennum sveitarfélögum um landið. Fólk sem sinnir barnavernd við þær aðstæður er sannarlega ekki öfundsvert af verkefnum sínum. Frumvarpið gerir ráð fyrir að barnaverndarumdæmi séu almennt ekki fámennari en 6.000 íbúar.

Eitt markverðasta nýmælið í frumvarpi ráðherrans er að pólitískt skipaðar barnaverndarnefndir verða lagðar niður. Fyrirkomulagið nú er þannig að sveitarstjórnarmenn koma sér saman um skipan nefnda í hverju sveitarfélagi og barnaverndarnefndir þar á meðal.

Að þessu frumvarpi fram komnu blasir við að framkvæmd barnaverndar á ekkert skylt við stjórnmál og flokkslínur, heldur skiptir þar mestu sú fagþekking sem fáanleg er.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að í stað barnaverndarnefnda verði starfrækt barnaverndarþjónusta og umdæmisráð barna á vegum sveitarfélaganna. Þannig verði fagþekking ráðandi í barnaverndarþjónustu.

Af sögu Katrínar Salimu Daggar Ólafsdóttur sést hve mikilvægt er að umgjörð öll um velferð barna sé traust. Frumvarp ráðherrans stefnir að því markmiði.

Það hlýtur að fá skjóta afgreiðslu Alþingis.