Í dag verður fyrsta barnaþingið sett í Hörpu með sérstakri hátíðardagskrá. Á þinginu verða börn í aðalhlutverki, fulltrúar úr ráðgafarhópi umboðsmanns barna munu sjá um fundarstjórn á hátíðardagskránni í dag og hópur barna sem valinn var með slembivali úr þjóðskrá mun leiða umræður um þau málefni sem á þeim brenna á þingi barna á morgun. Verndari barnaþings er frú Vigdís Finnbogadóttir og verður hún viðstödd hátíðardagskrá og setningu þingsins.

Barnaþingið er skipulagt af umboðsmanni barna en á síðasta ári samþykkti Alþingi breytingar á lögum um umboðsmann barna þar sem kveðið var á um að umboðsmaður barna boði annað hvert ár til barnaþings þar sem farið verði yfir stöðu og þróun í málefnum barna á helstu sviðum samfélagsins en gert er ráð fyrir því að niðurstöður þingsins verði kynntar ríkisstjórn og hlutaðeigandi ráðherrum. Það er embættinu mikill heiður að fá að standa að svo metnaðarfullu verkefni sem án efa mun valda straumhvörfum í samráði við börn hér á landi. Embættið vinnur einnig að tillögum að aðgerðaráætlun um samráð við börn fyrir ríkisstjórnina, samkvæmt samningi við félags- og barnamálaráðherra, og mun barnaþingið verða mikilvægur þáttur í samráði við börn á komandi árum.

Í gær var haldið upp á þrjátíu ára afmæli Barnasáttmálans með margvíslegu móti, meðal annars héldu margir grunnskólar lýðræðisþing nemenda. Þetta er afar jákvæð þróun en innleiðing Barnasáttmálans gerir kröfu um aukna samfélagslega þátttöku barna og aðild þeirra að ákvarðanatöku í nærsamfélagi þeirra.

Áhersla Barnasáttmálans á þátttöku barna er eitt mikilvægasta framlag hans til að valdeflingar barna. Segja má að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um mótun sérstakrar aðgerðaráætlunar um þátttöku barna og ákvörðun Alþingis um að halda skuli barnaþing annað hvert ár með þátttöku barnanna sjálfra, sé ein mikilvægasta gjöf þeirra til íslenskra barna, nú þegar því er fagnað að 30 ár eru liðin frá því að Barnasáttmálinn var samþykktur.