Virðist mér af ís­lenskum vef­síðum að landinn hafi haft á­hyggjur af því að framá­menn sínir væru gengnir í barn­dóm. Mér er mikil á­nægja að lýsa því yfir að sam­kvæmt at­burðum síðustu daga á spænska þinginu virðast þeir enn eiga langt í land.

Dæmi: Þing­maður Lýð­flokksins sagði eitt­hvað á þessa leið við Pablo Ig­lesias ráð­herra: „Pabbi þinn er hryðju­verka­maður.“ En ráð­herrann lét ekki sitt eftir liggja og sagði daginn eftir við full­trúa Vox­flokksins: „Ég held ykkur langi að henda í eitt valda­rán en þið þorið það ekki.“ Voxarinn kallaði ráð­herrann þá kommún­ista og gekk á dyr. Héldu um­ræður á­fram og voru mjög svo í takt við þær sem háðar voru í sand­kassanum heima á Bíldu­dal, nema að Logi átti það til að lemja mig í hausinn með skamm­byssu. Til þess hefur enn ekki komið á spænska þinginu, enda skil­virk vopna­leit við inn­ganginn.

En er það ekki dóna­skapur við börnin að kalla þetta barna­skap? Eða hvað kjáni heldur því fram að frekja, fýla og uppi­vöðslu­semi vaxi af fólki eins og fíla­penslar? Svo er ekki, það sést best þegar gefur á bátinn. Þar að auki þróa full­orðnir með sér auð­særan­legt stolt og yfir - gengi­legan hégóma­skap, sem er erfiður far­angur, hvað þá þegar handa­gangur er í öskjunni. Auð­vitað krefst ég þess, eins og aðrir, að fólk hegði sér skikkan­lega og þá sér­stak­lega þegar mikið liggur við. En ef sá dagur rennur upp að ég haldi að full­orðnir séu vaxnir upp úr barna­skap, þá fyrst er ég lík­legast genginn í barn­dóm.