Almenn bólusetning við hlaupabólu hófst í byrjun árs 2020 og náði til barna sem fæddust árið 2019 og síðar. Eldri dóttir mín er fædd 2014 svo við hjónin keyptum sjálf bóluefni og létum bólusetja hana eftir ábendingu frá vinkonu.

Svo liðu árin. Ronja fæddist í október 2018 og fékk því ekki „sjálfkrafa“ boð í bólusetningu. Þegar við hjónin áttuðum okkur á því reyndum við að bóka í bólusetningu síðasta vor en þá var ekki til bóluefni. Það var eins og við manninn mælt – nokkrum vikum eftir að ég fór að leita að bóluefni fékk Ronja hlaupabólu.

Hvílíkur djöfulsins viðbjóður.

Að þessi bólusetning hafi ekki verið komin inn í kerfið fyrr er ömurð. Barnið fékk um hundrað blöðrur. Undir fæturna, milli fingra, í augnkrókana, hársvörð og nárann. Hún gat engan veginn legið vegna sára. Hún fór tvisvar á heilsugæsluna og endaði með sýkingu uppi á barnaspítala – einangruð, því hlaupabóla er mjög smitandi.

Sýklalyf, sár grátur nótt eftir nótt, hún hríðhoraðist og nú mörgum mánuðum seinna er hún enn með holur og ör eftir sárin.

Þessi veikindi tóku þrjár vikur. Sparnaðurinn fyrir kerfið við að bólusetja ekki fyrr en 2019 er einhver – en hvað ætli þetta spítalabrölt okkar hafi kostað, fyrir utan sársaukann?

Ég hef verið temmilega mikið með þetta á heilanum síðan og spyr því, í tíma og ótíma, ókunnuga í sundi og á róló: „Jii, hvað hún er skemmtilegt barn. Hvenær er hún fædd? Já, 2018. Einmitt. Er hún bólusett við hlaupabólu?“

Krossa svo fingur og vona að við getum sleppt sem flestum börnum við þessum andstyggilegu og óþarfa veikindum.