Loftslagsbreytingar eru sameiginleg áskorun allra þjóða heimsins. António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lagði í febrúar á þessu ári áherslu á að árið 2021 yrði ákveðinn vendipunktur fyrir aðgerðir þjóða í baráttunni við loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra. Þrátt fyrir þá staðreynd að flestar þjóðir heims hafi lagt sig fram í þessum efnum, þá erum við enn langt frá því að ná markmiði Parísarsáttmálans. Allar þjóðir heims þurfa því að herða baráttuna við þessa miklu vá.

Kína lagði mikið af mörkum til að sátt næðist um Parísarsáttmálann og hefur síðan virt hann og stigið stór skref frá orðum til athafna. Í Kína hefur verið unnið ötullega að því að byggja upp umhverfisvænt samfélag, sem fer sparlega með auðlindir og ákvæði um umhverfis- og vistvæn þróunarmarkmið eru nú bundin í stjórnarskrá landsins.

Á liðnum árum hefur Kína hrint í framkvæmd aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og einarðlega leitað leiða til grænna lausna og samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda. Þannig hefur náðst mikill árangur, m.a. í því að draga úr losun koldíoxíðs, eyðingu skóglendis, vexti eyðimarka og að bæta innviði orkuframleiðslu og dreifikerfa.

Við lok árs 2019 hafði meðalútblástur gróðurhúsalofttegunda sem hlutfall af vergri landsframleiðslu lækkað um 48,1% miðað við árið 2005 og hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa af orkuauðlindum hækkað upp í 15,3%.

Kína hefur mörg undanfarin ár staðið öðrum þjóðum framar á sviði endurnýjanlegra orkugjafa hvað varðar fjölda einkaleyfa, fjárfestinga og uppbyggingar raforkuframleiðslu og dreifikerfa. Hlutur Kína í mögulegri raforkuframleiðslu með sólar- og vindorku er nú um þriðjungur á heimsvísu.

Á sama tíma hefur Kína ráðist í umtalsverða kolefnisbindingu með umfangsmikilli og aukinni skógrækt. Á árinu 2018 hafði stærð og umfang skógræktarsvæða aukist um 45,09 milljón hektara og um 5,104 milljarða rúmmetra miðað við árið 2005. Á þessu tímabili var með þessu mesti vöxtur skóglendis í heiminum í Kína. Á árinu 2020 var fjöldi nýrra rafmagnsfaratækja framleiddum í Kína 1,366,000, þegar heildarfjöldi seldra nýrra rafmangsfarartækja var 1,367,000 og skipuðu sér með þessu í fyrsta sæti á heimsvísu sjötta árið í röð.

Þann 22. september 2020 lýsti forseti Kína, Xi Jinping á vettvangi 75. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna því einarðlega yfir að Kínverjar myndu auka enn framlag sitt með kröftugri stefnumörkun og aðgerðum í umhverfismálum og Kína stefndi að því að heildarlosun koltvíoxíðs myndi ná hámarki fyrir árið 2030, og að kolefnishlutleysi yrði náð fyrir árið 2060. Þetta mun taka mun styttri tíma í Kína heldur en hjá þróuðum ríkjum, og mun Kína leggja mikið á sig til að ná þessum markmiðum.

Á sérstakri loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (Climate Ambition Summit) þann 12. desember 2020 lagði forseti Xi Jinping ríka áherslu á þörfina fyrir að við þéttum raðirnar og tækjum stærri skref á sviði stjórnunar loftslagsmála, sem feli í sér aukna samvinnu og sameiginlegan ávinning. Hann lýsti af hálfu Kínverja yfir enn metnaðarfyllri eftirfarandi losunarmarkmiðum fyrir 2030: Kína hafi þá lækkað losun koldíoxíðs sem hlutfall á einingu af vergri landsframleiðslu (GDP) um meira en 65% miðað við árið 2005, aukið hlut endurnýjanlegra orkugjafa af orkuauðlindum í 25%, aukið magn skóglendis í 6 milljarða rúmmetra miðað við 2005 og aukið getu til raforkuframleiðslu með vind- og sólarorku í meira en 1.2 milljarða kílóvött.

Þann 22. Apríl 2021, á loftslagsráðstefnu heimsleiðtoga í boði Bandaríkjanna, lagði forseti Xi Jinping áherslu á hina margbrotnu hugsun og kjarna hinnar nýju hugmyndar um “samfélag manns og náttúru” og kynnti tillögur Kína til að styrkja loftslagsstjórnun á heimsvísu.

Þessar aðgerðir sýna að Kína mun halda áfram á þeirri vegferð að þróa grænar lausnir, stefna á kolefnishlutleysi og mun axla þá ábyrgð að taka þátt í uppbyggingu í þágu sameiginlegrar framtíðar mannkyns. Með þessu hefur Kína aukið sjálfstraust þjóða heimsins til að takast á við loftslagsbreytingar og staðið dyggilega vörð um og stutt alþjóðlega samvinnu í baráttu við áskoranir á sviði loftslagsmála. Nú er í Kína unnið að gerð sérstakrar áætlunar til að standa við áðurnefndar skuldbindingar og þróa hagnýtar lausnir til að ná settum markmiðum og leggja ríkulega af mörkum til stuðnings sjálfbærrar þróunar á alþjóðavísu.

Auk þessa á Kína í nánu samstarfi við önnur lönd, alþjóðlegar stofnanir og félagasamtök og gegnir mikilvægu hlutverki í að hvetja til og viðhalda alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði. Það er ekki síður mikilvægt að vinna gegn loftslagsbreytingum meðan COVID-19 faraldurinn herjar á heimsbyggðina. Alþjóðasamfélagið má ekki slá slöku við heldur ber því að standa við loftslagspólitískar skuldbindingar og markmið skv. alþjóðlegum samningum, stuðla að samheldni og samvinnu og styðja við stefnuna, sem byggir á sýninni ,,sameiginleg en mismunandi ábyrgð” (CBDR principle; common but differentiated responsibilities). Það þarf að tryggja eftirfylgni og framþróun Parísarsáttmálans, virkt stjórnkerfi loftslagsmála og stuðning við hagnýtar aðgerðir og lausnir.

Kína og Ísland eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta í baráttunni við loftslagsbreytingar. Samstarf landanna m.a. á sviði jarðhitanýtingar og kolefnishringrásar hefur skilað ríkulegum ávöxt. Löndin okkar tvö geta styrkt samstarf sitt á þessum sviðum enn frekar, stutt dyggilega við innleiðingu Parísarsáttmálans og lagt sitt af mörkum til uppbyggingar sanngjarns og réttláts stjórnkerfis loftslagsmála til hagsbóta fyrir alla. Þannig má stuðla að ,,grænni upprisu” efnahags heimsins þegar faraldrinum lýkur. Við getum að auki unnið ötullega að því að dýpka upplýsingaflæði og samvinnu milli umhverfisverndarstofnana okkar og leitað stöðugt eftir tækifærum til frekari samvinnu á fleiri sviðum svo sem um þróun rafbíla, vindorku og vatnsorku og lagt meira af mörkum til verndar sameiginlegri jörð okkar allra.

Höfundur er sendiherra Kína á Íslandi.