Í gær bárust mér sorgarfréttir. Sonur konu sem ég kynntist í Kaliforníu lést úr hjartastoppi. Fentanyl fannst í blóði mannsins sem var 28 ára og vann við að semja tónlist. Atvik þetta er ekki einsdæmi. Andlát af völdum fentanyls jukust um 56 prósent í Bandaríkjunum á síðastliðnu ári. Andstætt því sem maður gæti haldið eru fórnarlömbin ekki harðsvíraðir dópistar, heldur ungt vinnandi fólk.

Nokkuð auðvelt virðist vera að nálgast fentanyl. Það er framleitt í Kína og sent áfram til Mexíkó þaðan sem því er dreift með nýstárlegum leiðum sem er ómögulegt að rekja. Dópsalar götunnar blanda síðan fentanyl í vörur sínar, en það hefur verið notað til að þynna út heróín, metamfetamín og kókaín. Fentanyl ku vera ódýrt í framleiðslu, en allt að fimmtíufalt sterkara en heróín. Líka banvænna. Mælingar sýna að 42 prósent af pillum innihalda lífshættulegan skammt. Allavega fyrir óharðnaða. Og það er engin leið fyrir neytendur að vita hve miklu hefur verið blandað saman við.

Sem lyf getur fentanyl linað óbærilega verki sé það gefið rétt og af lækni, en líkt og með önnur morfínskyld lyf er það misnotað. Það skil ég að vissu leyti. Morfínskylt lyf sem ég fékk fyrir mörgum árum eftir fylgikvilla skurðaðgerðar sendi mig í aðra vídd. Sæluvídd. Eftir að áhrifin þurru kölluðu pillurnar á mig líkt og gullhringurinn á Gollum, en ég fékk tvær með mér heim í nesti. Pillurnar enduðu í apótekinu til eyðingar en tilhugsunin um gullið er mér minnisstæð.

Fentanyl-faraldurinn sýnir ekki á sér fararsnið og spursmál hvenær hann nær fótfestu á Íslandi. Sem móðir ungra drengja hrýs mér hugur við tilhugsuninni um hið nýja götulyf. Því það þarf bara eitt augnablik í partíi. Einum skammti of mikið. Bara eina pillu.