Bresku heilsuhæli, sem vinsælt er meðal fræga fólksins, hefur verið stefnt fyrir rétt fyrir að halda því fram að eplabaka hælisins komi í veg fyrir krabbamein. Champneys keðjunni sem státar af gestum á borð við Beckham hjónin, Brad Pitt og Naomi Campbell, er gefið að sök að hafa haldið fram villandi fullyrðingum á matseðli sínum. Við fyrstu sýn virðist málið léttvægt. En þegar betur er að gáð má sjá að fullyrðingar um eplabökur með lækningamátt eru dauðans alvara. Árið 2010 lést hin 48 ára tónlistarkona, Arianna Foster, úr brjóstakrabbameini. Arianna var söngkona pönkhljómsveitarinnar The Slits. Hún var einnig stjúpdóttir John Lydon, söngvara The Sex Pistols. „Hún þurfti ekki að deyja," sagði Lydon í viðtali stuttu eftir andlátið, er hann greindi frá því að Arianna hefði hafnað hefðbundnum læknismeðferðum og kosið í staðinn óhefðbundnar lækningar. „Ef þú vilt lifa af eitthvað sem er læknanlegt eins og brjóstakrabbamein, ekki leita til rugludalla." Lydon sagði fjölskylduna þeirrar skoðunar að ákvörðun Ariönnu „jaðraði við sjálfsmorð“.

Guð og jólasveinninn

Virðing fyrir vísindum hefur víða virst takmörkuð síðustu misseri. Niðurstöður rannsókna á sviði loftslagsbreytinga eru gjarnan úthrópaðar sem óbreyttar skoðanir, engu upplýstari en Tweet frá Trump að næturlagi. Mislingatilfellum fer fjölgandi í heiminum í kjölfar þess að foreldrar taka í auknum mæli að líta á eitt helsta afrek læknavísindanna, bólusetningar, sömu augum og guð og jólasveininn; maður ræður hvort maður trúir á þær eða ekki. En skjótt skipast veður í lofti. Ekki er langt síðan bresk stjórnvöld gáfu frat í fagfólk. „Fólkið í landinu hefur fengið nóg af sérfræðingum," sagði Michael Gove, fyrrverandi dómsmálaráðherra, í aðdraganda þjóðar-atkvæðagreiðslu um aðild Bretlands að Evrópusambandinu þegar honum gekk illa að finna hagfræðinga sem voru reiðubúnir að fullyrða að Brexit yrði Bretum til gagns en ekki tjóns. Nú keppist hins vegar Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og samherji Gove í Brexit baráttunni, við að styðja athafnir sínar áliti sérfræðinga. Johnson segir „vísindin vísa sér leið“ þegar kemur að viðbrögðum ríkisstjórnar hans við kóróna-veirufaraldrinum. Á daglegum blaðamannafundum gætir hann þess ávallt að umkringja sig fríðu föruneyti virts vísindafólks. Á viðsjárverðum tímum kórónaveirunnar erum við öll undir vísindunum komin. Við treystum á að þróuð verði læknismeðferð við veirunni, próf sem sýni hraðar en nú er hægt hvort fólk sé smitað eða ekki, próf sem sýni hvort fólk sé búið að fá vírusinn og læknast af honum – og að endingu bóluefni.

En faraldurinn sem nú geisar sýnir ekki aðeins fram á mikilvægi vísinda heldur einnig hættur af hvers konar húmbúkki. Sá orðrómur komst á kreik í Íran að áfengi veitti vörn gegn kórónaveirunni. Hundrað manns hafa nú látist af völdum metanóleitrunar, eftir að hafa drukkið eitrað heimabrugg, en neysla áfengis er bönnuð í Íran. Annað dæmi um hættur af bábiljum á tímum kórónaveirunnar er sértrúarsöfnuður í SuðurKóreu sem sakaður er um að bera ábyrgð á skjótri útbreiðslu vírussins þar í landi. Þegar smit tók að breiðast ógnarhratt um söfnuðinn hvöttu leiðtogarnir meðlimi hans til að leyfa ekki að láta prófa sig fyrir vírusnum og vitnuðu í rétt safnaðarins til friðhelgi trúarlífs.

„And-vitsmunahyggja er óslitinn þráður sem fléttast inn í pólitískan og menningarlegan veruleika okkar og nærist á þeirri ranghugmynd að lýðræði þýði að vanþekking mín sé jafnrétthá þekkingu þinni.“ Svo skrifaði rithöfundurinn Isaac Asimov í grein sem birtist í Newsweek fyrir þrjátíu árum. Þegar yfirstandandi faraldri linnir er óskandi að það verði ekki aðeins kórónaveiran sem hörfar, heldur einnig tískusveifla sú sem upphefur fáviskuna.