Árið 2009 lifði hin 24 ára Susannah Cahalan öfundsverðu lífi sem minnti á sjónvarpsseríuna Sex and the City. Hún starfaði sem blaðamaður hjá New York Post, bjó á besta stað á Manhattan, átti sér fjörugt félagslíf og nýjan kærasta.

Dag einn tók Susannah eftir því að hún var með skordýrabit á hendinni. Hún sannfærðist um að veggjalýs plöguðu heimili hennar. Þegar meindýraeyðir fann engin ummerki um skaðvaldinn trúði hún honum ekki og krafðist þess að hann úðaði íbúðina eitri.

Á leið í vinnuna gekk Susannah yfir Times Square. Birta auglýsingaskiltanna olli henni stingandi höfuðverk. Á ritstjórnarskrifstofunni fannst henni veggirnir anda. Hún skreið undir skrifborðið sitt og grét. Eitthvað var að, en hún vissi ekki hvað.

Kvöld eitt fékk Susannah heiftarlegt krampakast. Læknisrannsóknir leiddu hins vegar ekkert í ljós. Henni var sagt að ekkert amaði að henni.

En krampaköstin ágerðust. Það gerði ofsóknaræði hennar líka. Hún óttaðist ekki aðeins veggjalýs heldur var hún sannfærð um að kærasti hennar væri henni ótrúr og að faðir hennar vildi hana feiga.

Fjölskylda Susönnuh var sannfærð um að sjúkdómur hennar væri af líkamlegum toga. En þegar einn fremsti taugalæknir New York-borgar sagði hana einfaldlega þurfa að „minnka partístandið“ var hún send til geðlæknis og greind með geðhvörf. Susönnuh hélt þó áfram að hraka. Hún hætti að geta talað, gengið og nærst. Hún urraði eins og dýr og varð ofbeldishneigð.

Susannah var við dauðans dyr þegar læknir ákvað að leggja fyrir hana próf. Hún átti að teikna klukkuskífu. Susönnuh tókst að ljúka verkinu. Tölurnar skrifaði hún hins vegar allar öðrum megin á skífuna. „Heili hennar brennur,“ sagði læknirinn. Prófið sýndi fram á líkamlegan kvilla. Susannah var 217. sjúklingurinn sem greindist með sjaldgæfan sjálfsónæmissjúkdóm þar sem líkaminn ræðst á ákveðin svæði heilans.

Susannah skrifaði metsölubókina „Brain on fire“ um reynslu sína. Í nýlegu viðtali við Breska ríkisútvarpið minntist Susannah þess að áratugur er liðinn frá útkomu bókarinnar. Í viðtalinu sagði hún frá viðhorfsbreytingu, sem hún fann fyrir innan heilbrigðiskerfisins, þegar í ljós kom að sjúkdómur hennar var af líkamlegum toga en ekki geðrænum.

Þegar talið var að Susannah þjáðist af geðröskun var látið í það skína að ástand hennar og hegðun væru henni sjálfri að kenna. „Fólk var pirrað út í mig, sagði mig erfiðan sjúkling, það horfði ekki í augun á mér, snerti mig ekki.“ Það breyttist við greiningu sjálfsónæmis. „Áhugi ríkti í kringum líkamlegu greininguna sem var ekki til staðar þegar greiningin var geðsjúkdómur.“

Ákall Örnu

Í vikunni skrifaði Arna Pálsdóttir, lögfræðingur og móðir, grein á visir.is um átröskun dóttur sinnar. Í greininni kallar Arna eftir hugarfarsbreytingu í garð geðraskana.

Arna segir fjölskylduna hafa margoft leitað á heilsugæsluna. „Þegar við mætum er horft á okkur eins og við séum geimverur, úrræðaleysið er algert.“ Hún gagnrýnir átröskunarteymi Barna- og unglingageðdeildar Landspítalans. „Þangað er ekki hægt að leita nema þegar veikindi eru orðin mjög alvarleg t.d. ef barn er í sjálfsvígshættu.“ Hún spyr: „Sjáum við fyrir okkur barn vera greint með sykursýki hér á landi en að viðeigandi meðferð sé ekki í boði fyrr en sjúkdómurinn er orðinn lífshættulegur, jafnvel kominn á lokastig?“

Viðhorfsmunur til líkamlegra sjúkdóma og geðsjúkdóma kostaði Susönnuh Cahalan næstum lífið.

Dánartíðni vegna átraskana er ein sú hæsta af öllum geðsjúkdómum. Hverju hyggjast heilbrigðisyfirvöld svara ákalli Örnu Pálsdóttur?