Bar­áttan gegn Co­vid-19 heims­far­aldrinum hefur gengið ó­trú­lega vel þökk sé tíman­legum bólu­setningum og sí­endur­teknum fyrir­mælum og ráð­leggingum sótt­varna­yfir­valda.

Í þessu sam­bandi finnst mér við hæfi að minnast á annan heims­far­aldur sem hefur herjað á mann­kynið frá því löngu fyrir Krist. Það var hin ægi­lega bólu­sótt (small­pox), en hún er talin hafa leitt til dauða 300-500 milljóna manna (vísinda­vefurinn.is) talið bara frá árinu 1900.

Til saman­burðar má nefna tölu fallinna í tveimur heims­styrj­öldum, í þeirri fyrri um 20 milljónir manna og í þeirri síðari um 75 milljónir. Af þessu sést hversu ó­gur­legur og ban­vænn þessi heims­far­aldur var. Sam­kvæmt yfir­lýsingu WHO (Al­þjóða-heil­brigðis­mála­stofnunarinnar) var bólu­sóttin mikla lýst út­dauð árið 1980, þökk sé heims­á­taki í bólu­setningum.

Allt fram á 18. öld þekkti Evrópa engin ráð gegn sóttinni en þegar mikil far­alds­bylgja gekk yfir London árið 1721 brá allt í einu upp skæru ljósi sem vísaði veginn á þessum dimmu ör­væntingar­tímum.

Fram kom á sjónar­sviðið kona að nafni María (Lady Mary Wortl­ey Montagu) en þegar hún dvaldi í Tyrk­landi með manni sínum, sem þar var am­bassador á þessum tíma, varð hún vitni að að­ferð sem þar­lendar konur beittu til að verjast bólu­sóttinni. Að­ferðin var þessi:

Skorin var rispa á ökkla eða hand­legg þess sem verja átti við veikinni, síðan var vessi tekinn úr út­ferð á bólu­sóttar­sjúk­lingi og settur á sárið og bundið um. Við þetta fékk við­komandi væg ein­kenni bólu­sóttar en var síðan ónæm/ó­næmur fyrir hinni hræði­legu veiki. Að­ferð þessi hefur ýmist verið kölluð engra­ft­ment, eða inoculation eða variolation á ensku.

Lady Mary notaði þessa að­ferð á sín eigin börn og sama gerði vin­kona hennar, Karó­lína af Ans­bach prinsessa af Wa­les (sem síðar fór með drottningar­vald á Eng­landi), og munaði auð­vitað mjög um stuðning hennar. Þær hófust nú handa við að kynna að­ferðina á heima­slóðum en þá komu fljótt í ljós erfið­leikar – þeir heita van­þekking og for­dómar – ban­vænir for­dómar.

Menn sögðu – en er þessi að­ferð ekki komin frá Tyrkjum! Hvernig ætti hin há­æru­verðuga og sið­menntaða enska þjóð að fara að því að viður­kenna og nota þekkingu frá þjóð sem stóð þeim svo langt að baki? Og ekki bætti úr skák að manneskjan sem barðist fyrir þessari varnar­að­ferð – var kona!

Tvær stéttir manna í London tóku alveg sér­stak­lega undir með þessari af­stöðu sem að öllum líkindum kom í veg fyrir að ótal manns­lífum væri bjargað.

Ég skrifa þessa grein til að minna á að er til­efni gefst til þá ber að minnast þeirra karla og kvenna, sem hafa af­rekað eitt­hvað mikil­vægt öllu mann­kyni til heilla. Það á alveg sér­stak­lega vel við nú, er við glímum við enn einn heims­far­aldurinn, að minnast hennar Lady Mary Wortl­ey Mona­tgu sem barðist gegn miklu mót­læti við að bjarga lífi sam­borgara sinna í London árið 1721 en nú eru ein­mitt liðin 300 ár frá því hún lagði í þann mikla leið­angur.

Um þetta allt má lesa í ný­út­kominni bók sem heitir:

The Pioneering Life of Mary Wortl­ey Montagu

Scientist and Feminist

By Jo Wil­let

P.s. Það má geta þess til gamans að aðal­vísinda­mennirnir á bak við Pfizer-bólu­efnið, sem við nú notum til varnar gegn Co­vid-19, eru hjónin dr. Ugur Sahin og dr. Özlem Tureci – bæði frá Tyrk­landi!