Enn á ný er hafið vaxta­hækkunar­ferli hjá bönkunum og enn á ný er engin leið fyrir venju­lega lán­taka að átta sig á því hvort vaxta­hækkanirnar séu rétt­mætar. Af hverju? Jú, skil­málar lána með breyti­legum vöxtum eru ó­skýrir og inni­fela ein­hliða hug­læga mæli­kvarða sem ekki er hægt að sann­reyna.

Þegar Seðla­bankinn hóf vaxta­lækkunar­ferli sitt í ágúst 2019, vakti at­hygli að það tók bankana marga mánuði að lækka láns­vexti. En nú þegar megin­vextir Seðla­bankans hækka ei­lítið, eru lán­veit­endur snöggir að fylgja í kjöl­farið. Vissu­lega munu bankarnir rök­styðja mál sitt með því að benda á ó­ljósa skil­mála í lána­samningum sínum, sem þeir sjálfir hafa samið ein­hliða. Vandinn er að enginn getur sann­reynt hvort vaxta­breytingarnar séu rétt­mætar, sann­gjarnar og tíma­bærar. Og þar stendur hnífurinn í kúnni.

Eins og komið hefur fram telja Neyt­enda­sam­tökin skil­mála um breyti­lega vexti og á­kvarðanir um vaxta­stig lána ekki standast lög. Neyt­enda­sam­tökin hafa í á annað ár krafist þess að bankarnir lag­færðu skil­mála sína og leið­réttu hlut þeirra lán­taka sem hallað hefur verið á með vaxta­á­kvörðunum sem standast ekki á­kvæði laga, en bankarnir hafa jafn­harðan hafnað því. Þess vegna hafa sam­tökin ýtt úr vör á­taki með það fyrir augum að knýja bankana til að fara að lögum. Á vaxtamalid.is stendur ein­mitt yfir leit að lán­tökum sem vilja fara með mál sín fyrir dóm. Máli sínu til stuðnings hafa sam­tökin bent á fjölda úr­skurða og dóma sem fallið hafa á undan­förnum árum.

Jafn­framt eru lán­takar hvattir til að bregðast fljótt við, verja rétt sinn og gera endur­kröfur á hendur lán­veit­endum. En Neyt­enda­sam­tökin telja lík­legt að of­taka bankanna geti numið 15 til 45 milljörðum króna. Þó það séu stjarn­fræði­legar upp­hæðir, má til saman­burðar geta að hagnaður stóru bankanna þriggja nam rúmum 17 milljörðum króna á einungis fyrsta árs­fjórðungi ársins.

Vaxta­málið varpar skýru ljósi á þann að­stöðu­mun sem neyt­endur búa gjarnan við. Fyrir­tæki sem búa yfir yfir­burðar fjár­hags­stöðu og þekkingu gera neyt­endum að sam­þykkja ein­hliða og ó­sann­gjarna skil­mála. Neyt­endur eru ekki í að­stöðu til að bera hönd fyrir höfuð sér. Það er grund­vallar­at­riði að sam­tök neyt­enda hafi styrk til að sækja mál fyrir dóm­stólum og geti sótt mál sem varða al­manna­hags­muni, eða tekið til varna þegar svo ber undir. Sundraðir hags­munir eru létt­vægir, en sam­einaðir eru þeir kraft­mikið hreyfi­afl sem knýr fram já­kvæðar breytingar, eins og dæmin sanna.

Því er á­kaf­lega mikil­vægt að neyt­endur standi saman og sýni með ó­yggjandi hætti að þeir séu reiðu­búnir að sækja rétt sinn, og tryggja að af­gerandi niður­staða fáist. Enginn kostnaður fylgir því að taka þátt, einungis mögu­legur á­vinningur, sem getur numið um­tals­verðum upp­hæðum. Nú er farið af stað vaxta­hækkunar­skeið og því afar mikil­vægt að fá úr því skorið hvað ræður vaxta­á­kvörðunum og að þær verði sann­reynan­legar. Mikil­vægt er að bregðast strax við til að slíta fyrningu, því annars getur hluti eða öll krafan tapast en ekki síður til að eiga rétt á dráttar­vöxtum, en þeir reiknast frá þeim degi sem þú gerir endur­kröfu á hendur lán­veitanda.

Sækjum rétt okkar og knýjum þannig fram breytingar sem gagnast öllum lán­tökum í nú­tíð og fram­tíð. Skráum okkur til þátt­töku á vaxta­málið.is.