Flestir sem stigið hafa fram og gagnrýnt sölu ríkisins á 35 prósenta hlut í Íslandsbanka eiga það sammerkt að vera einfaldlega mótfallnir einkavæðingu banka og eru fylgjandi því að ríkið eigi jafnvel fleiri en einn banka. Gagnrýni þeirra á hlutafjárútboðið ber að skoða með þeim augum.

Hlutafjárútboð og skráning Íslandsbanka var glæsileg. Þetta er áfangi sem ber að fagna. Það stenst ekki skoðun að verðkennitölur Íslandsbanka eigi að vera þær sömu og hjá Arion banka eins og sumir vilja halda fram. Markaðsvirði fyrirtækja byggir á væntri arðsemi þeirra og grunnrekstur Arion banka er arðbærari en hjá Íslandsbanka.

Andstæðingar bankasölunnar gera mikið með það að útboðsgengið hafi verið ígildi þess að hver króna af eigin fé Íslandsbanka hafi verið keypt á 0,85 krónur. Það ætti ekki koma spánskt fyrir sjónir enda fást bankar í Evrópu að meðaltali fyrir minna. Þegar virði hlutafjár er lægra en eigið fé er það oftast merki um að reksturinn rísi ekki undir arðsemiskröfu.

Það að ríkið eigi mikinn meirihluta í bankanum getur dregið úr virði hans. Ríkið ræður alfarið för og því getur verið erfitt fyrir aðra hluthafa að koma til leiðar umbótum í rekstri. Aukinheldur skapast sú hætta ef einkum litlir hluthafar eiga í banka, en stærri einkafjárfestar fengu lítið í útboðinu, að það skorti fjárfesta sem hafa þekkingu á bankarekstri sem geti veitt stjórnendum bankans leiðsögn og aðhald. Enn fremur er það yfirlýst stefna ríkistjórnarinnar að selja Íslandsbanka að fullu. Það þýðir að mikið framboð kunni að vera í uppsiglingu af hlutabréfum bankans sem gæti stuðlað að lægra hlutabréfaverði.

Ríkissjóður er skuldum hlaðinn eftir björgunaraðgerðir til að takast á við afleiðingar af Covid-19 heimsfaraldrinum. Mikilvægt er að grynnka á skuldunum með eignasölu. Salan á hlut í Íslandsbanka leiðir til þess að ríkið þarf að sækja minna fé á skuldabréfamarkað. Það gæti orðið þess valdandi að vaxtabyrði ríkissjóðs af skuldabréfamögnun verði minni þar sem ávöxtunarkrafan lækkar vegna væntingar um minni útgáfu ríkisskuldabréfa. Framboð og eftirspurn ræður för á skuldabréfamarkaði. Þannig að þótt bankinn hafi verið seldur á afslætti gæti það verið unnið upp með lægri fjármögnunarkostnaði.