Við dekrum við framtíðar sjálf okkur eins og börn. Svo fullyrðir bandaríski félagssálfræðingurinn Daniel Gilbert. Í hvert sinn sem við sækjumst eftir einhverju – stöðuhækkun, hjónabandi, nýjum bíl, ostborgara – væntum við þess að sú manneskja sem ber fingrafar okkar eftir sekúndu, mínútu, dag eða áratug verði okkur þakklát fyrir þær fórnir sem við færðum. En viðbrögð þessara framtíðar gerða af sjálfum okkur eru oft önnur en við ætluðum. „Við þrælum okkur út til að veita þeim allt það sem við teljum þau þrá en svo segja þau upp vinnunni, safna hári, flytja til eða frá San Francisco og spyrja hvernig við gátum verið svona vitlaus að halda að þetta væri það sem þau vildu.“

Ekki er ólíklegt að þetta sé einmitt viðhorf þeirra fjölmörgu, sem stödd eru í langþráðu sumarfríi, til fortíðar sjálfra sín. Þótt ferðalög annarra líti á samfélagsmiðlum út eins og myndir í sölubæklingi ferðaskrifstofu er raunveruleikinn oft líkari víti Dantes og níu hringjum þess:

  1. Limbó: Forgarður helvítis eru undirmannaðir flugvellir en þangað eru heiðingjar sendir til dvalar að eilífu – sem er einmitt biðtími eftir töskum í farangursafgreiðslu nú um stundir.
  2. Girnd: Í öðrum hring vítis, sem stundum er kallaður EasyJet, er stanslaust rok. Ókyrrð í lofti er þó lítið böl samanborið við félagsskapinn, saurlífisseggi á borð við Akkilles, Kleópötru og ókunnuga sætisfélagann sem skýtur olnboganum yfir sætisbríkina og teygar míní flöskur af víni uns tekur að drafa í honum að konan hans skilji hann ekki.
  3. Ofát: Í þriðja hringnum er þeim refsað sem kunna sér ekki hóf. Syndugum er þó vorkunn því að hlaðborð hótela er eini vettvangurinn þar sem endurheimta má hluta kostnaðarins við fríið sem maður hafði í raun aldrei efni á. Refsingin samkvæmt Dante er voldugur stormur með hagléli og mannaskít – eða eins og það kallast í ódýrari pakkaferðum til Tene: Matareitrun.
  4. Græðgi: Séra Davíð Þór Jónsson rataði í fréttirnar nýverið þegar hann sagði „sérstakan stað í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd.“ Flestir vita við hvern hann átti. Færri vita að máltækið er fengið úr Hinum guðdómlega gleðileik eftir Dante. Allir vita að það er sérstakur staður í fataskápum fólks fyrir varning sem keyptur var í útlöndum dýrara verði en fyrir sálartetur en var aldrei notaður eftir heimkomu.
  5. Reiði: Í fimmta hring vítis busla hinir heiftúðugu í fúlu fljóti sem kallast Styx. Hver yrði ekki reiður svamlandi í sundlaug fullri af skríl og plástrunum af þeim vitandi að Nonni í næsta húsi er með „infinity pool“ í fríinu sínu?
  6. Villutrú: Áður en lagt var í hann var fríið trúin á ferðamyndir annarra á samfélagsmiðlum; lakkaðar tær í flæðarmáli, hrímað hvítvínsglas á borði, börnin að dunda sér í samstæðum sumarfötum. En veruleikinn er banamein drauma.
  7. Ofsi: Hver gengi ekki af trúnni við blæðandi fætur undan nýjum sandölum, fimm hæða kúluís í blóðkerfi og á bolum barnanna, þriggja stunda biðröð til að komast að því að Móna Lísa er ekki mikið stærri en frímerki og í vísitölufjölskyldu þarf alltaf einhver að pissa á tuttugu mínútna fresti?
  8. Fals: En þjáningar í áttunda hring vítis verða næstum þess virði er við vinnum bug á sjálfshatrinu eitt andartak með því að láta öðrum líða illa og deilum mynd á Facebook af hrímuðu hvítvínsglasi með boðskapnum: Sjáðu mig, ég er að gera eitthvað fáránlega skemmtilegt á meðan þú ert að gera upp á milli þess að tækla þvottafjallið eða skera þig á púls.
  9. Fláræði: Níundi hringur vítis er ísilögð veröld þar sem freðnar sálir sitja fastar til eilífðarnóns. Velkomin heim.