Það er ekki lítið sem ÍR hefur lagt til samfélagsins á sinni 115 ára sögu! Á frjálsíþróttasviðinu voru ÍR-ingar í fararbroddi á síðustu öld allt frá upphafi, báðir verðlaunahafar Íslands á Ólympíuleikum ÍR-ingar. Fjöldi annarra Ólympíufara, landsliðsmanna og leiðtoga hefur stolt borið ÍR-merkið í barmi.

Samfélagið hefur breyst mikið á þessum 115 árum. Árið 1907 bjuggu rúmlega 10 þúsund íbúar í Reykjavík, en nú búa í Breiðholtinu einu meira en tvöfalt fleiri, eða um 22 þúsund manns.

Íþróttirnar hafa líka breyst. Starfið í íþróttafélögunum í dag er ekki aðeins fyrir Ólympíufara og annað harðkjarna keppnisfólk. Nú er íþróttastarfið ómetanlegt í uppeldi barna og ungmenna en ekki síður svar fjöldans við hreyfingarleysi við dagleg störf, ólíkt því sem var. Fá félög hafa þannig svarað kalli breyttra tíma betur en ÍR-ingar sem halda nú úti öflugu starfi sem hæfir öllum aldri í alls tíu deildum!

Nú hefur Reykjavíkurborg sýnt í verki stuðning sinn við þetta stórveldi í frjálsíþróttum og reist í samstarfi við ÍR nýjan glæsilegan fagurbláan og hvítan opinn frjálsíþróttavöll í Mjódd, í ÍR-litunum. Mikilsverð uppbygging fyrir frjálsíþróttastarf í landinu en ekki síður fyrir nágrannana í Breiðholtinu, ÍR-inga á öllum aldri sem nú eru boðnir velkomnir á bláu brautina og mjúku skokkbrautina umhverfis völlinn.

Um leið er þetta mikilsverð viðurkenning borgarinnar á breyttu samfélagi sem kallar nú eftir opinni og aðgengilegri íþróttaaðstöðu í sínu nærumhverfi.

Til hamingju, Reykjavík, með glæsilegan nýjan frjálsíþróttavöll, fyrsta hverfisvöllinn, fyrirmynd fyrir önnur hverfi!

Til hamingju, Breiðhyltingar, með ykkar nýju mannvirki sem nú bíða ykkar í Mjóddinni! Mannvirki sem eiga eftir að verða ykkur, sem munuð grípa gæsina og reima á ykkur skóna, uppspretta gleði, hreysti og hamingju!

Síðast en ekki síst, til hamingju, ÍR, með 115 ára afmælið! Ykkar er ekki aðeins sagan, heldur einnig framtíðin!