Bakþankar

Bændur, grípið gæsina!

Nú er aldeilis tækifæri fyrir grænmetisbændur á Suðurlandi að grípa gæsina og markaðssetja tómatana á Spáni.

Þetta kann að hljóma undarlega því ekki er langt síðan að maður keypti tómatshlunk á markaðnum hér syðra og hljóp með hann heim með álíka eftirvæntingu og Gunni Þórðar með fyrstu Bítlaplöturnar. Enda hef ég átt margar gæðastundir með þverskornum tómati, vættum í ólífuolíu og með ögn af salti og auðvitað má vínið ekki vanta.

Nú eru hins vegar stórfyrirtæki eins og Bayern komin með puttana í þetta. Þau selja eins konar spíttfræ sem verður að plöntu sem drekkur vökvann í sig eins og Kampavíns-Kalli. Útkoman er tómatslíki eða öllu heldur vatn í tómatsumbúðum. Hræðilegur óskapnaður sem varla er þess verðugur að vera fleygt í sauðspilltan stjórnmálamann. Ég, tómatsunnandinn sjálfur, sker þetta með álíka ófrýnilegum svip og þegar ég roðdró ufsaflökin í Fiskverkun Magnúsar úti á Granda í denn. Alvöru tómatur er vandfundinn nema komist þú garðinn hjá gömlu körlunum.

Gæðastundir mínar með íslenska tómatinum eru ekki jafn undursamlegar og þær sem ég hef lýst hér að ofan, það verður að segja eins og er. Hins vegar man ég það vel að íslenski tómaturinn er allavega tómatur og það er bara heilmikill lúxus á þessum síðustu og verstu hagræðingartímum. Spánverjar munu örugglega taka við sér þegar þeir verða orðnir þreyttir á tómatslíkinu og kaupa íslenskan tómat sem mætti markaðssetja sem „alvöru tómat“.

Og fyrst við erum byrjaðir á þessu, því ekki að selja heilu gámana til Bandaríkjanna? Nú eru tómatarnir þar eflaust hið mesta lostæti, ég veit það ekki, og kannski bara á hagstæðu verði. En ég meina, þetta lið kaus Donald Trump, af hverju ætti það ekki að flytja inn tómata frá Flúðum?

Auglýsing
Auglýsing