Skömmu fyrir jól fór ég í liðskipti á hné. Aðgerðin tókst mjög vel. Röntgenmyndir af gerviliðnum sýndu fullkomna stöðu. Í raun var bara eitt lítið vandamál. Ég gat ekki fyrir mitt litla líf gengið á fætinum. Í hönd fóru endurteknar læknaheimsóknir, sjúkraþjálfun og rannsóknir. Allt kom fyrir ekki. Ég haltraði áfram með og án hækju. Í þessum hörmungum öllum tók sig upp gamalt brjósklos hinum megin svo að ég var orðinn fótalaus.

Ég fór í hlutverk farlama sjúklings. Konan mín fór í hlutverk hins meðvirka aðstandanda sem studdi fótalausa manninn. Ég lærði að stjórna öllu mínu umhverfi með stunum og þjáningarsvip. Verkjablæbrigði og alls konar aðgerðir voru aðalumræðuefnið á heimilinu. Mér veittist létt að aðlagast píslarvættis- fórnarlambshlutverkinu og velti því fyrir mér að fara í viðtal í fjölmiðlum með mynd. Ætlaði að standa á hækjunum fyrir framan Borgarspítalann með þóttafullan raunasvip. Þegar ég hætti að geta hjólað fór ég að fitna af hreinni sjálfsvorkunn.

Eftir nokkurra mánaða vesaldóm fór að rofa til. Nýir læknar og sjúkraþjálfari komu að málinu. Gömul vinkona mín sendi mér lækna að handan sem höfðu sérhæft sig í stoðkerfavandamálum. Verkirnir minnkuðu. En það var ekki sársaukalaust. Ég missti öll forréttindi sjúklingsins. Stunur voru harðbannaðar. Enginn sýndi þjáningum mínum neinn áhuga lengur. Konan mín fór á meðvirkninámskeið til að geta ráðið við ástandið ef allt færi á verri veg. Nú er ég farinn að sakna þeirra tíma þegar ég var miðpunktur tilverunnar. Kannski maður fari bara í liðskiptaaðgerð hinum megin.