Í dag hefst heimsókn embættis umboðsmanns barna til Fljótsdalshéraðs, en allir starfsmenn embættisins munu dvelja þar þessa viku. Heimsóknin er liður í að efla tengsl embættisins við sveitarfélög á landsbyggðinni, kynna starfsemi embættisins, hitta þá sem vinna að málefnum barna og heimsækja skóla. Þó starfsaðstaða embættisins verði á Egilsstöðum munu starfsmenn embættisins einnig leggja leið sína til Seyðisfjarðar, Djúpavogs og Borgarfjarðar eystri.

Umboðsmaður barna hefur það hlutverk að efla þátttöku barna í samfélaginu og vinna að því að tekið sé fullt tillit til réttinda, þarfa og hagsmuna þeirra á öllum sviðum. Með heimsókninni mun umboðsmaður barna efla tengsl embættisins við börn á landsbyggðinni og hitta meðal annars fulltrúa úr ungmennaráði Fljótsdalshéraðs.

Umboðsmaður barna hefur á síðustu tíu árum starfrækt ráðgjafarhóp ungmenna á aldrinum 12-17 ára við embættið og með breytingum á lögum um umboðsmann barna í árslok 2018 var starfsemi ráðgjafarhópsins lögfest. Rík áhersla hefur verið lögð á að auka fjölbreytni innan hópsins og fjölga börnum af landsbyggðinni. Vonir standa til að auka hlut barna í öllum landsfjórðungum á næstu árum.

Á fyrsta barnaþingi umboðsmanns barna í nóvember var lögð áhersla á þátttöku barna af öllu landinu, en börnin voru valin með slembivali úr þjóðskrá. Það sama verður uppi á teningnum við skipulag næsta barnaþings í nóvember 2021. Ætlunin er að styrkja enn frekar það hlutverk embættisins að vera talsmaður barna af öllu landinu og tryggja að sjónarmið þeirra skili sér í stefnumótun stjórnvalda og ákvarðanatöku.

Heimsóknin til Egilsstaða er skipulögð í góðri samvinnu við forsvarsmenn Fljótsdalshéraðs en sveitarfélagið útvegar embættinu starfsaðstöðu og hefur skipulagt veglega dagskrá fyrir starfsmenn embættisins þessa viku. Tengslin munu því vafalaust styrkjast og verður gaman að kynnast því öfluga starfi sem þarna er unnið í þágu barna, hitta börn á öllum aldri og fulltrúa úr ungmennaráði sveitarfélagsins.