Við þurfum sem samfélag að bregðast við margvíslegum og alvarlegum aðstæðum á tímum COVID-19 faraldursins. Ein áskorunin tengist hættunni á vaxandi heimilisofbeldi sem hlýst af samkomubanni og tilmælum um að sem flestir haldi sig heima. Þegar hafa komið fram vísbendingar um að ofbeldi í nánum samböndum hafi færst í aukana að undanförnu. Oftast er um að ræða konur og börn. Nauðsynlegt er að bregðast við og tryggja eins og kostur er öryggi þeirra sem búa í slíku umhverfi.

Ég hef óskað eftir því við Ríkislögreglustjóra að aðgerðir til að bregðast við heimilisofbeldi verði sérstaklega teknar til umræðu á fundi lögregluráðs í þessari viku. Lögregluembættin verða öll að vera vakandi fyrir þessari hættu og reiðubúin til að grípa til viðeigandi ráðstafana hvar sem er á landinu. Hraða verður, eftir því sem mögulegt er, viðbragðstíma lögreglu eftir að tilkynning hefur borist um yfirvofandi eða yfirstandandi hættu eða ógn á heimili.

Við þurfum að tryggja þolendum möguleika og úrræði til að bregðast við og forða sér út úr hættulegum aðstæðum. Ótti um að þau úrræði séu ekki örugg vegna þess faraldurs sem ógnar nú lífi og heilsu landsmanna er ástæðulaus. Gerðar hafa verið ráðstafanir til að bregðast við af völdum COVID-19 í Kvennaathvarfinu, Bjarkarhlíð og Bjarmahlíð. Enginn má veigra sér við að leita sér aðstoðar á þessum tímum. Þolendur eiga kost á að fá þar vernd, dvöl, viðtöl og ráðgjöf, lögfræðiaðstoð og langtíma stuðning til að vinna úr afleiðingum ofbeldis.

Við þurfum öll að hjálpast að við að miðla upplýsingum um hvert þolendur heimilisofbeldis geti leitað. Fræðsla og forvarnir er varða ofbeldi í nánum samböndum og heimilisofbeldi er mikilvægt á öllum tímum. Við þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu er sérstaklega mikilvægt að efla slíkt starf. Víða um heim eiga konur erfiðara með að leita sér hjálpar vegna COVID-19. Öll verðum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi fólks sem býr við erfiðar aðstæður ofbeldis og ótta á heimilum sínum. Ef þú veist af eða hefur grun um heimilisofbeldi, haltu góðu sambandi við þolanda, láttu lögregluna vita og leitaðu aðstoðar hjá fagaðila.

Lögreglan: 112, Kvennaathvarfið: sími: 5611205 (opið allan sólarhringinn), Bjarkarhlíð: sími: 5533000 og Bjarmahlíð Akureyri: sími: 551-2520.