Sannarlega var hún áhugaverð opnuauglýsingin sem birtist í Fréttablaðinu fyrr í þessari viku, það má jafnvel flokka hana sem sláandi, og margt og mikið má út af henni leggja. Á henni sáust andlit tæplega 300 einstaklinga, sem allir munu vera undir fertugu, og yfirskriftin var: „Ekki spila með framtíðina okkar.“ Auglýsingin var kostuð af þessu sama fólki og í texta sem fylgdi henni stóð: „Við styðjum áframhaldandi aðild Íslands að EES-samningnum. Við viljum frjálst, opið og alþjóðlegt samfélag og stöndum saman gegn einangrunarhyggju.“

Þessi skilaboð ættu að vera svo sjálfsögð og eðlileg að enga sérstaka nauðsyn bæri til að ítreka þau í flennistórri auglýsingu í víðlesnasta dagblaði landsins. Það að þetta unga fólk hafi séð ríka ástæðu til að gera einmitt það bendir sterklega til þess að öfl í þessu landi séu markvisst að grafa undan þessum sjálfsögðu markmiðum. Hafi horn í síðu EES-samningsins, líti alþjóðlega samvinnu sömuleiðis hornauga og aðhyllist einangrunarhyggju. Það þarf engan snilling á stjórnmálasviðinu til að sjá að svo er einmitt raunin.

Frjálslynt fólk sem aðhyllist samvinnu milli þjóða og virðir alþjóðastofnanir og mannréttindastofnanir hlýtur að hafa áhyggjur af framgöngu þingmanna Miðflokksins og Fólks flokksins sem hafa látið í ljós efasemdir um kosti EES-samningsins. Þessir sömu þingmenn bera svo á borð alls kyns fullyrðingar um þriðja orkupakkann, eins og til dæmis að hann feli í sér framsal á fullveldi og að Íslendingar muni með honum tapa yfirráðum yfir auðlindum sínum. Engu skiptir hvaða staðreyndir eru lagðar fram til að hrekja þessar fullyrðingar, á þeim er ekki tekið mark heldur er endurtekin með reglubundnum hætti romsan um vondu útlendingana og báknið í Brussel. Það er vitað að þegar hræðsluáróður er endurtekinn nógu oft, þá hefur hann áhrif. Efasemdum hefur verið sáð og hópur fólks hugsar: „Getur verið að þetta sé rétt?“ Einhverjir komast síðan að þeirri niðurstöðu að ógnin komi einmitt að utan, og veita flokkum sem básúnað hafa þann boðskap fylgi sitt í kosningum.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði á þingi á dögunum: „Ég spái því að í næstu kosningum fari flokkar eins og Miðflokkurinn og Flokkur fólksins í samkeppni um það hver er með digurbarkalegustu yfirlýsingarnar í garð EES-samningsins og hvort hagsmunum okkar sé ekki betur borgið utan EES.“ Þetta er alveg örugglega hárrétt og flokkarnir munu hala inn eitthvað af atkvæðum út á slíkt tal og einnig gera lukku með boðskap sem elur á tortryggni gagnvart innflytjendum sem hafa aðra trú en kristni. Öfl eins og þessi hafa náð völdum í nágrannalöndum og með öllum ráðum þarf að forða því að þau öðlist áhrif hér á landi. Opnuauglýsingin góða er til marks um að ungt fólk ætli sér að standa vaktina og beita sér hraustlega gegn einangrunarhyggju. Þau ætla ekki að láta vanhæfa stjórnmálamenn ógna framtíð sinni.